Grímuklæddur þjófur stal smokkum á Suðureyri

Brotist var inn í söluskála Esso á Suðureyri aðfaranótt fimmtudags. Það eina sem þjófurinn hafði á brott voru 4 pakkar Durex smokkum með ávaxtabragði.

Í frétt á vefnum bb.is kemur fram, að eftirlitsmyndavél er á staðnum og í myndskeiði sést þegar þjófurinn, sem var grímuklæddur, braust inn í söluskálann.

Þegar þjófurinn kom inn gekk hann rakleiðs að smokkunum. Hann reyndi svo lítillega að opna peningakassann á leið sinni út aftur, en þegar að það gekk ekki greiðlega fyrir sig, hélt hann aftur út í myrkrið.

Þjófurinn braut rúðu í bakhurð til að komast inn í verslunina.

Lögreglan á Ísafirði vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu við Bæjarins besta þar sem það er ekki upplýst. Ef einhverjir vita hver var þarna að verki eða hafa upplýsingar sem geta auðveldað rannsóknina er hægt að koma þeim ábendingum til lögreglunnar á Ísafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert