Frystiskipið Guðmundur VE 29 kom til Vestmannaeyja í dag, en unnið hefur verið að endurbótum á því í Póllandi síðan í mars á síðasta ári. Eldur kom upp í skipinu þegar það var nýkomið til skipasmíðastöðvarinnar og tafði það endurbæturnar talsvert.
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir að fyrirtækið hafi ekki orðið fyrir miklu tjóni vegna eldsvoðans, nema hvað að auðvitað hafi tapast tími sem annars hefði verið nýttur til veiða.
Skipið var lengt um 12,5 metra í Póllandi auk annarra endurbóta og viðgerða vegna eldsvoðans, en miklar skemmdir urðu á millidekki og vinnsludekki í honum.
Eyþór segir skipið líta mjög vel út og að það verði líklega tilbúið til veiða eftir tvær vikur, og vonast hann til þess að það geti þá haldið til löðnuveiða. Ef það gengur ekki verður skipið sett í önnur verkefni, líklega á kolmunnaveiðar.
Í tilefni þess að Guðmundur VE er kominn aftur til Eyja verður skipið opið bæjarbúum og öðrum áhugamönnum um sjávarútveg í dag milli klukkan 15 og 18.