Ökumaður sem ók ölvaður um Hvalfjarðargöng og Vesturlandsveg á ofsahraða gistir nú fangageymslur lögreglu, en hann reyndist of ölvaður til að hægt væri að taka af honum skýrslu í nótt. Lögreglumenn við eftirlit tóku eftir manninum þar sem hann ók upp úr Hvalfjarðargöngunum á ofsahraða og veittu bifreiðinni eftirför, á 150 kílómetra hraða dró enn í sundur með bifreiðunum og ákváðu lögreglumenn þá að draga úr hraða.
Lögreglubílar komu á móti úr Reykjavík og var maðurinn á endanum stöðvaður við Álfsnes og færður á lögreglustöð til skýrslutöku, þegar þangað kom reyndist maðurinn, sem er tæplega fertugur, of ölvaður til að hægt væri að taka af honum skýrslu og fékk hann því að gista fangageymslur.
Þá barst lögreglu tilkynning í nótt vegna manns sem hafði lagst til svefns í íbúð hvar hann ekki bjó. Maðurinn reyndist ölvaður og var honum hjálpað að komast til síns heima.