Þrettándabrennan við Ægisíðu var eyðilögð í nótt

Draslið sem sett var á brennuna við Ægissíðu.
Draslið sem sett var á brennuna við Ægissíðu. mbl.is/Sverrir

Á þrettándanum, sem er á morgun, verða þrjár brennur í Reykjavík, þ.á m. ein við Ægisíðu, en síðastliðna nótt var bálkösturinn eyðilagður með þeim hætti að einhver losaði sig við byggingaúrgang með því að sturta vörubílahlössum á brennustæðið. Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að reisa nýja brennu í tæka tíð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfissviði borgarinnar í kvöld.

Auk brennunnar á Ægisíðu verða brennur við Gufunes í Grafarvogi klukkan 17.30 og við Sæmundarsel við Reynisvatn í Grafarholti klukkan 18. Kveikja á í brennunni við Ægisíðu klukkan 16.40.

Strangar reglur gilda um brennur og sérvelja starfsmenn Reykjavíkurborgar efnið og raða í bálkestina en einungis er leyfilegt að nota pappa og timbur í brennur og þess háttar brennuefni. Skemmdarvargurinn hlóð hins vegar steypuklumbum, ofnum, steinull, rafmagnsvírum, plastbrúsum, máluðu timbri, svampi og öðru efni sem ekki er leyfilegt á brennur.

Lögreglan hefur málið til rannsóknar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert