Um 95% af 200 hektara landsvæði í Auðsholti fór á kaf í flóðunum

Fyrir um hálfum mánuði gerði allmikið flóð þegar miklar leysingar urðu til þess að Hvítá og Ölfusá flæddu yfir bakka sína. Mikið land fór undir vatn þar á meðal um 95% af 200 hektara landi bóndans á Auðsholti 4 í Hrunamannahreppi.

Steinar Halldórsson, bóndi, segist ekki vera búinn að láta meta hjá sér tjónið. Hann segir túnin hafa sloppið óskemmd en áin tók hinsvegar með sér um fjóra kílómetra af girðingum. Ólafur segir allar skepnur hjá sér hafa sloppið heilar á húfi, en hann er með um 500 ær og um tug hrossa. Steinar segist þó vita til þess að nokkur hross af öðrum bæjum hafi drepist.

Í Auðsholti eru átta íbúðarhús og tvö hefðbundin bú, þ.e. kúabú og sauðfjárbú. Alls búa þar um 30 manns.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir að átta tilkynningar um tjón hafi borist vegna skemmda af völdum flóðanna. Búast megi við fleiri tilkynningum þegar fram líði stundir. Hann segir að almannavarnanefndinar fjórar í Árnessýslu muni koma saman til fundar þann 30. þessa mánaðar og verður þá farið yfir stöðu mála. Sveitastjórar muni gera grein fyrir því tjóni sem þeir hafa aflað sér upplýsinga um.

Ólafur segist hafa boðað mann frá Viðlagatryggingum auk manna frá Vatnamælingum Orkustofnunar á fundinn.

Fram hefur komið að Orkustofnun ætli að gera útbreiðslukort af flóðunum fyrir jólin til þess að fá sem gleggstar upplýsingar um við hvers konar vanda er að etja í svona flóðum. Kortin verða gerð í samvinnu við Almannavarnir, skipulagsyfirvöld og Vegagerðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert