Geir Jón segir að lögreglan sé farin að taka eftir breytingum vegna þessa. „Menn sem við vissum að væru þarna inni [í Byrginu] og vorum afskaplega glaðir með að væru ekki úti á götunni eru komnir út," segir hann.
Geir segir að þarna á meðal séu einstaklingar sem séu þekktir hjá lögreglunni fyrir fíkniefnaneyslu og erfið samskipti og mikið hafi borið á. Þann tíma sem þessir menn hafi ekki verið á götunni hafi róast yfir.
Þau mál sem tilkynnt hafi verið lögreglu varði ofbeldi, neyslu fíkniefna og ýmislegt sem því fylgi.
Það hafi verið sorglegt að frétta af því að um 20 manns hafi yfirgefið Byrgið. Fólkið fari ekki allt beint á götuna, „en við merkjum að það er byrjað," segir Geir. Þegar Byrgið hafi farið í fulla starfsemi á sínum tíma hafi farið af götunni nokkuð stór hópur ungs fólks sem hafi verið illa farinn af neyslu fíkniefna og búið á götunni.
„Við kvíðum því að það fari aftur í sama munstrið og sama ferilinn og áður þekktist," segir hann. Fólkið eigi í hús að venda til að byrja með en fari það á kaf í neyslu endi það á götunni.