Færeyska útvarpið hefur fjallað um þetta verkefni og kom þar fram að tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að leggja rafstreng milli Íslands og Færeyja og það væri einnig hægt að leysa það fjárhagslega.
Færeyingar nota árlega 250–300 GWst af rafmagni, en til samanburðar er notkunin á Íslandi 8.500 GWst. Um 70–100 GWst eru framleiddar með vatnsorku, en afgangurinn er framleiddur með dísilrafstöðvum og vindmyllum. Mikil hækkun á olíuverði hefur leitt til aukins áhuga Færeyinga á öðrum lausnum í orkumálum. Þorkell Helgason sagði að í kjölfar heimsóknar Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, til Færeyja í fyrra hefði verið ákveðið að setja af stað könnun á hagkvæmni þess að leggja rafstreng milli Íslands og Færeyja. Verið er að leggja lokahönd á forathugunarskýrslu um málið. Þorkell sagði að næsta skref í málinu væri að taka ákvörðun um hvort leggja ætti fjármuni í ítarlegri faglega könnun á þessu verkefni.
Þó að raforkumarkaðurinn í Færeyjum sé ekki stór væri hægt að stækka hann frekar með því að hita upp vatn sem notað yrði til húshitunar. Þar myndu um 100 MW bætast við þau 40–50 MW sem nú eru framleidd með olíu. Þorkell sagði að athugun benti hins vegar til þess að það væri ekki hagkvæmt að nota rafmagn frá Íslandi til húshitunar, nema verð á olíu hækkaði enn meira.