Tilkynnt var um innbrot í kjallaraíbúð í Teigahverfi í Reykjavík um klukkan 16:30 í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Meðal þess sem var stolið var fartölva, Playstation-leikjavél og flakkari. Málið er í rannsókn.
Í neðra Breiðholti var veski stolið í ólæstri forstofu í íbúðarhúsi. Lögreglan segir ljóst að einhver er á ferli og kannar um leið hvort útidyrahurðir séu ólæstar.
Þá var brotin rúða í húsi og farið inn í það í Grjótaþorpinu í miðbæ Reykjavíkur í dag. Ekki liggur fyrir hvort einhverju hafi verið stolið.
Í Vesturbæ Reykjavíkur var brotist inn í bifreið í dag og veski stolið. Lögregla vill hvetja fólk frá því að skilja verðmæti eftir í bifreiðum þannig að þau sjáist.