Sannfærður um ávinning af markaðsátaki vestanhafs

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segist sannfærður um að það sé ávinningur af markaðsátaki í sölu íslenskra landbúnaðarvara í Bandaríkjunum fyrir íslenskan landbúnað og íslenska þjóð, en Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði í fréttum RÚV á föstudag að það væri ekki framtíð í því að selja lambakjöt til Bandaríkjanna.

Guðni sagðist ekkert hafa um þessi ummæli Valgerðar að segja. Þau hefðu komið fram fyrr. "Ég er sannfærður um að það hefur verið ávinningur fyrir íslenskan landbúnað og íslenska þjóð af því markaðsátaki sem verið hefur í Whole Foods-búðunum. Mjór er mikils vísir og þar eigum við góða von um að geta selt okkar vörur sem hágæðavörur á háu verði."

Guðni sagði að það væri engin spurning að íslenskar mjólkurvörur eins og skyr seldust og vektu mikla athygli í Bandaríkjunum "Lambið þykir einstakt. Svo er þetta auðvitað spurning oft um stöðu dollarans og hverju hann skilar heim, en átakið lofar góðu og hefur áhrif á gríðarlega mörgum sviðum, eins og hvað varðar kynningu á Íslandi."

Hann sagði að það að komast inn í 180–200 verslanir vítt og breitt um Bandaríkin með kynningu skilaði hingað ferðamönnum og þar hefði Ísland með hreina náttúru og fjölskyldubúskap vakið mikla athygli.

"Ég eyði ekkert tíma mínum að ræða um þá sem efast. Það er öllum frjálst í sjálfu sér," sagði Guðni.

Hann sagði að markaðurinn yrði að mæta eftirspurn eftir kjöti frá þessum markaðssvæðum. Bændur hefðu þurft að selja hluta af afurðum sínum á erlenda markaði. Sem betur færi hefði neyslan aukist hér en það myndi eftir sem áður þurfa að flytja út um þúsund tonn og þá skiptu góðir markaðir miklu máli, hvar sem þeir væru. Aðalatriðið væri að fá sem hæst verð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert