Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon er látinn í Bretlandi, 77 ára að aldri. Að sögn breskra fjölmiðla greindist Magnús með krabbamein á síðasta ári. Magnús fæddist í Reykjavík en ólst upp í Edinborg í Skotlandi. Hann var kunnastur fyrir að stýra spurningaþættinum Mastermind í breska sjónvarpinu, BBC, í aldarfjórðung.
Í tilkynningu frá börnum Magnúsar, sem BBC vitnar til, segir að hann hafi fengið hægt andlát á heimili sínu í Glasgow í dag. „Magnús var örlátur, staðfestur og elskaður sem eiginmaður og faðir. Hann kenndi okkur öllum að lifa og á síðustu vikunum kenndi hann okkur að deyja," segir í tilkynningunni.
Mark Thompson, útvarpsstjóri BBC, segir á fréttavef breska útvarpsins, að Magnús hafi verið einn kunnasti sjónvarpsmaður BBC. Segir hann að hugur allra starfsmanna BBC sé hjá fjölskyldu Magnúsar.
Magnús Magnússon fæddist í Reykjavík árið 1929, sonur hjónanna Sigursteins Magnússonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Hann fluttist með foreldrum sínum til Edinborgar þegar hann var níu mánaða gamall en faðir hans varð yfirmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) í Evrópu 1930, með aðsetur í Edinborg.
Magnús stundaði nám í ensku við Jesus College í Oxford og útskrifaðist þaðan árið 1951 og lagði síðan stund á framhaldsnám í íslenskum fornbókmenntum í Oxford og Kaupmannahöfn. Hann starfaði sem blaðamaður hjá Scottish Daily Express og The Scotsman. Árið 1964 var Magnús ráðinn sem einn af kynnum fréttaþáttarins Tonight hjá BBC. Hann hóf síðan að stýra Mastermind árið 1972. Þegar þátturinn var sem vinsælastur fylgdust um 22 milljónir manna með honum í sjónvarpi.
Magnús var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við sjö skoska og enska háskóla og hlaut fjölmargar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. íslensku fálkaorðuna og heiðursriddaraorðu hins breska heimsveldis árið 1989, en það er æðsti heiður sem erlendum ríkisborgara getur hlotnast á breskri grundu en Magnús hélt ávallt íslenskum ríkisborgararétti. Hann fékk heiðursverðlaun Eddunnar árið 2002. Síðustu árin var Magnús heiðursrektor Caledonian-háskólans í Glasgow.
Magnús hélt ávallt góðum tengslum við Ísland og talaði góða íslensku. Hann gerði m.a. sjónvarpsþætti um Ísland og þýddi m.a. Íslendingasögur á ensku og nokkrar skáldsögur Halldórs Laxness. Þá skrifaði hann um Ísland og víkingaöldina og gerði sjónvarpsþætti um víkinga og fornleifafræði.
Magnús giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, bresku blaðakonunni Mamie Baird árið 1954, og eignuðust þau fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi: sonurinn Jon og dæturnar Anna, Margaret og Sally og hafa þau öll starfað við sjónvarp í Bretlandi. Sonurinn Siggy lést í bílslysi þegar hann var þrettán ára að aldri.