Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja afar mikilvægt, að birgjar taki á með smásölunni og hagræði í rekstri hjá sér til að koma í veg fyrir verðhækkanir á matvöruverði. Segja samtökin, að þeim sé kunnugt um að slík hvatning hafi komið frá smásöluversluninni til heildsölustigsins og full ástæða þyki til að taka undir hana.
Í fréttapósti SVÞ segir, að margir framleiðendur og innflytjendur matvöru hafi að undanförnu hækkað söluverð sinna vara og nemur hækkunin yfirleitt frá 3-5%, en fyrir einstakar vörur mun hærra. Þetta sé afar óheppilegt þar sem þessar vörur eigi að lækka vegna aðgerða stjórnvalda hinn 1. mars nk. og það hafi skapast almennur vilji til þess í þjóðfélaginu að leitast við að lækka matvöruverð og nálgast með því verð t.d. í nágrannalöndunum.
„Það er öllum ljóst sem fylgjast með á matvörumarkaði, að samkeppni í smásöluversluninni hefur verið afar hörð og að þar er ekki mikið borð fyrir báru til að taka á sig hækkanir. Sífellt er leitast við að hagræða til þess að skapa sér samkeppnisforskot sem á þessum markaði byggir að mestu á vöruverði. Ekki er hægt að segja að jafn glögg mynd blasi við varðandi framleiðendur og heildsala, þ.e.a.s. birgja, þar sem starfshættir þeirra og starfsemi er meira hulin almenningi. Söluverð birgja ber aðeins fyrir augu innkaupafólks smásala og er að auki mismunandi eftir því hver kaupandinn er. Samkeppni birgja byggir oft á ýmsu öðru en verði, en er að öðru jöfnu ekki innan sjónvíddar almennings.
Það er versluninni nauðsyn að sýna fram á að þær breytingar sem koma til framkvæmda hinn 1.mars n.k. í skattlagningu matvöru skili sér til neytenda í lægra vöruverði. Stjórnendur stærstu smásöluverslana hafa lýst því yfir að þetta sé þeim metnaðarmál, en vitaskuld þarf baklandið jafnframt að gera þetta mögulegt," segir í fréttapóstinum.