Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem Gallup Capacent gerði fyrir Fjölmiðlavaktina, telur almenningur að Baugur/Baugsmálið/Bónusfeðgamálið hafi verið stærsta fjölmiðlamál ársins 2006. Þessarar skoðunar voru 42,6% þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni.
Næst á eftir komu Kárahnjúkar en 15,3% þeirra, sem tóku afstöðu töldu Kárahnjúkavirkjunina stærsta fjölmiðlamál ársins 2006. Til viðbótar við niðurstöðu um Kárahnjúkar töldu 2,9% þátttakenda almenn umfjöllun um virkjanir og álver vera stærsta fjölmiðlamál ársins 2006.
Fjölmiðlavaktin segir, að þetta séu nokkuð athyglisverðar niðurstöður þar sem umfjöllun um Kárahnjúka hafi verið mun meiri en umfjöllun um Baugsmálið. Þannig voru fréttir og greinar þar sem Kárahnjúkar voru nefndir alls 2024 árið 2006 en fréttir og greinar um Baugsmálið alls 943. Fjöldi frétta um Baug samtals, þ.m.t. allar viðskiptafréttir, eru einnig langt undir fjölda frétta um Kárahnjúka.
Í þriðja sæti yfir stærstu mál ársins 2006 mældist umfjöllun um Byrgið og en könnunin var gerð 13. desember 2006 – 2. janúar 2007 þegar Byrgið var mjög í sviðsljósinu.
Önnur málefni sem tilgreind voru sérstaklega af almenningi og mældust með niðurstöðu 2,3–3,8% voru olíusamráðið, fjölmiðlafrumvarpið, Árni Johnsen, RÚV–hlutafélagavæðing, virkjanir/álver almennt, DV og hleranir. Umfjöllun um kosningar náðu ekki að vera meðal þeirra málefna sem mældust með hærri en 2% niðurstöðu en samt fjölluðu um 3 þúsund greinar og fréttir um kosningar á vormánuðum síðasta árs.
Spurt var: Hvert telur þú stærsta fjölmiðlamál ársins 2006? Endanlegt úrtak í könnuninni var 1294 manns á aldrinum 16–75 ára og var svarhlutfall 61,8%.