Öryrkjum fjölgar áfram hér á landi

Geðraskanir og stoðkerfisraskanir eru algengustu orsakir örorku, að því er kemur fram í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar kemur fram að áframhald hefur orðið á þeirri þróun síðustu ára, að öryrkjum fjölgi á Íslandi en mikil tækifæri séu til að draga úr þessari þróun með því að efla starfsendurhæfingu og grípa til annarra úrræða á vinnumarkaði, enda sé minna lagt í slík úrræði hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Í greininni, fjalla þeir Sigurður Thorlacius, Sigurjón B. Stefánsson og Stefán Ólafsson um rannsókn sem þeir gerðu á örorku á Íslandi í desember árið 2005. Þar kemur fram að þann 1. desember 2005 voru 8,6% kvenna skilgreind sem öryrkjar og 5,5% karla. Hjá konum var örorka algengari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en svo var ekki hjá körlum.

Þegar horft er á einstaka landshluta var örorka hjá konum algengust á Reykjanesi og fátíðust á Vestfjörðum, en hjá körlum var örorka algengust á Norðurlandi og Suðurlandi og fátíðust á Austurlandi. Algengi örorku óx með aldri og í heildina var örorka algengari hjá konum en körlum. Geðraskanir og stoðkerfisraskanir voru algengustu orsakir örorku.

Í leiðara Læknablaðsins, sem Tómas Zoëga skrifar, er einnig fjallað um þessa rannsókn og þá niðurstöðu, að hlutur geðraskana í örorku hafi aukist hlutfallslega meira en aðrir örorkuþættir á síðustu árum og áratugum. Árið 1962 var geðröskun fyrsta sjúkdómsgreining hjá 19,5% kvenna sem fengu metna örorku í fyrsta sinn. Hjá körlum var hlutfallið 17,4%. Á árabilinu 1999-2003 voru samsvarandi tölur fyrir konur 22% og 26,5% fyrir karla.

Árið 1996 var geðröskun fyrsta sjúkdómsgreining hjá 28% kvenna á örorku. Sambærilegt hlutfall fyrir karla árið 1996 var 31%. Árið 2005 var hlutfallið enn hærra, eða 32,8% hjá konum og 42,6% hjá körlum.

Tómas segir að ástæðurnar fyrir þessu séu ekki ljósar en bendir á, að við sameiningu sjúkrahúsa í Reykjavík hafi úrræðum geðdeildar fyrir bráðveika og langveika fækkað og úrræði utan sjúkrahúsa hafi ekki verið byggð upp í takt við niðurskurð innan þeirra. „Er hugsanlegt að sparnaður á einum stað hafi haft í för með sér enn meiri kostnað annars staðar? Allt þetta og sjálfsagt fleira gæti skýrt aukið hlutfall geðraskana af heildarörorku," segir Tómas.

Læknablaðið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert