Verjendur forstjóra olíufélaganna, Einars Benediktssonar, Geirs Magnússonar og Kristins Björnssonar, fóru fram á það í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ákæru í málinu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.
Ákæra á hendur núverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaganna þriggja var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan níu í morgun. Það eru rúm fimm ár síðan rannsókn Samkeppnisstofnunar á verðsamráðinu hófst.
Helstu röksemdir verjendanna eru þær að ákæra í málinu sé ekki í samræmi við lög um meðferð opinberra mála. Verknaðarlýsing er óskýr hvað varðar hlut sakborninga í ætlaðri refsiverðri háttsemi. Ákæran sé hlaðin skriflegum útlistunum og málflutningi um ætlaða refsiverða háttsemi þeirra félaga sem ákærðu stýrðu sem ekki á heima í ákæru skjali, að því er segir í framlögðum gögnum verjenda olíuforstjóranna í héraðsdómi í morgun.
Þar kemur jafnframt fram að einstaklingum verði ekki gerð refsing við þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru. Ákæran sé ekki reist á viðhlítandi rannsókn sakargifta. Við rannsókn málsins og við útgáfu ákæru hafi verið brotið gegn reglum um réttarstöðu sakborninga með þeim hætti að ekki verður bætt úr undir rekstri málsins.
Útgáfa ákæru í málinu sé andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Eins að refsikrafa í málinu sé andstæð banni við því að leggja oftar en einu sinni refsingu á aðila fyrir sömu háttsemi, að því er segir í framlögðum gögnum við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.