Landssamtök landeigenda stofnuð

Boðað hefur verið til stofnfundar Landssamtaka landeigenda á Íslandi 25. janúar. Er samtökunum ætlað að berjast fyrir því að eignarréttur landeigenda að jörðum þeirra sé virtur í svokölluðu þjóðlendumáli.

Fram kemur í tilkynningu að stofnun landssamtaka landeigenda eigi rætur að rekja til fundar í Skjólbrekku í Mývatnssveit 30. nóvember 2006 gegn þjóðlendukröfum ríkisins á austanverðu Norðurlandi. Fundarmenn kröfðust þess að fjármálaráðherra afturkallaði þegar í stað kröfur ríkisvaldsins í þinglýstar eignir í Þingeyjarsýslu og skoruðu jafnframt á ráðherra og alþingismenn að endurskoða þjóðlendulögin með það að markmiði að virða eignarrétt, þinglýstar landamerkjalýsingar og kaupmála.

Fundarmenn í Skjólbrekku samþykktu að beita sér fyrir stofnun landssamtaka landeigenda á Íslandi til að „sameina krafta þeirra sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart þjóðlendukröfum ríkisvaldsins“. Nefnd þriggja manna manna var kjörin til að stjórna undirbúningnum og blæs hún nú til stofnfundarins.

Í nefndinni eru Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Ólafur H. Jónsson, formaður Landeigenda Reykjahlíðar ehf., og Örn Bergsson á Hofi í Öræfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert