Ræddu málefni kvenna

Íslenska sendinefndin átti fund með prins Salman bin Abdul Aziz …
Íslenska sendinefndin átti fund með prins Salman bin Abdul Aziz sem var að sögn afar áhugasamur um Ísland. Fv. Belinda, Kolbrún, Arnbjörg, prins Aziz, Sólveig, Rannveig og formaður vináttunefndar.

„Konur þurfa að glíma við ýmsar hömlur og því þykir mér jákvætt að koma hingað með sendinefnd kvenna frá Íslandi, ræða þessi mál og kynna okkar viðhorf," segir Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sem um þessar mundir er í opinberri heimsókn í Sádi-Arabíu ásamt þingmönnunum Rannveigu Guðmundsdóttur, Arnbjörgu Sveinsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttur auk forstöðumanns alþjóðamála á skrifstofu Alþingis, Belindu Theriault.

Sólveig segir móttökurnar hafa verið afar góðar og sendinefndin mætt mikilli vinsemd og ótrúlegri gestrisni. Fyrsti fundur nefndarinnar var með prins Salman Bin Adbdul Aziz sem talinn er einn valdamesti maður landsins. „Við ræddum m.a. möguleika á auknu samstarfi milli landanna, stöðu kvenna þar sem hann lagði áherslu á aukna menntun kvenna og þátttöku í atvinnulífinu. Hins vegar tók hann fram að breytingar myndu aðeins gerast smátt og smátt." Prinsinn var jákvæður í garð frekari samskipta ríkjanna á milli og hugmynda um tvíhliðasamninga, s.s. á sviðum loftferða og fjárfestinga.

Sólveig segir að á öllum fundum sendinefndarinnar hafi framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna verið kynnt. Það hafi fengið góð viðbrögð og til standi að kynna framboðið enn frekar það sem eftir lifir heimsóknar.

Þingið afar ólíkt

Sendinefndin hitti einnig þingforseta ráðgjafaþingsins í gær sem hélt hádegisverðarboð henni til heiðurs. „Þar var töluvert rætt um stöðu kvenna og lýðræðislega þróun í landinu. Viðmælendurnir töldu víst að konum yrði leyft að kjósa árið 2009 og bentu jafnframt á að sex konur væru í ráðgjafastöðum í þinginu. Þá var talað um að hlutur kvenna í atvinnulífinu hefði vænkast mikið, sérstaklega í einkageiranum."

Sendinefndin fylgdist með þingstörfum sem eru í eðli sínu afar ólík því sem gerist á Íslandi, enda hefur þingið ekkert löggjafarvald. Sólveig bauð þingforsetanum og sendinefnd til Íslands til að fylgjast með þingstörfum á Alþingi við góðar undirtektir. "Það er ekki vafi í mínum huga að þessi heimsókn er gagnleg fyrir alla aðila og ég held að hún geti liðkað fyrir samskiptum þjóðanna á milli," segir Sólveig og tekur fram að nefndin hafi ekki mætt neinum fordómum og allir hafi verið tilbúnir að hluta á sjónarmið og ræða málin af hreinskilni. Hins vegar hafi íslensk sendinefnd kvenna vissulega vakið mikla athygli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert