Maðurinn, sem vildi ekki koma fram undir nafni en er kallaður Karl í viðtali við Morgunblaðið, var sjómaður á góðu skipi og hafði oft miklar tekjur. Segir hann að spilamennskan hafi farið rólega af stað en fyrr en varði hafi hún tekið af sér öll ráð.
„Maður byrjaði í þessum gömlu tíkallakössum en eftir að Pókerkassarnir komu til sögunnar gat ég léttilega spilað frá mér tugi þúsunda í hvert sinn," segir Karl og bætir við að með tilkomu Háspennunnar hafi freistingin aukist til muna.
Karl segir að hann hafi lengi reynt að fela ástandið fyrir konu sinni og vinnufélögum, meðal annars fengið sér pósthólf úti í bæ þangað sem allir reikningar voru sendir. Það hafi þó bara verið gálgafrestur.
„Ég var nýkominn í land... tók út hýruna, sem var 800 þúsund. Ég hafði lofað sjálfum mér að spila ekki þegar ég kæmi í land en þegar ég sá að gullpotturinn var kominn upp í 13 milljónir gat ég ekki staðist freistinguna," segir Karl, sem gekk úr spilasalnum með 100 þúsund kr.
Þegar hér var komið var öllu lokið fyrir honum. Hann ætlaði að stytta sér aldur en lenti inni á Vogi. Hann vinnur nú að því ásamt fjölskyldunni að borga skuldirnar og hefur greitt um 80% þeirra.
Karl segist fylgjandi hugmyndum borgarstjóra um að flytja spilakassana út í Örfirisey en hann leggur áherslu á að fyrir spilafíkla gildi það einu hvert spilið er.
Félagsmálaráðherra telur það vafasama leið hjá frjálsum félagasamtökum og stofnunum að fjármagna rekstur með spilakössum. Hann vill sjá takmörkun á fjölda og staðsetningu kassanna.
Nánar er fjallað um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.