Undanfarna daga hafa verið framin óvenju mörg innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Mest hefur verið um innbrot í bifreiðar og fyrirtæki. Þótt lögreglan telji ekki unnt að draga neinar ályktanir um tiltekna þróun af fjölguninni á þessum stutta tíma segir hún engu að síður ástæðu til að vara fólk við vegna þessarar innbrotahrinu.
Flest eru innbrotin í hverfum Reykjavíkur með póstnúmer 101 og 105. Fjölgun innbrota kemur einnig fram í Hafnarfirði og Kópavogi samanborið við tölur frá sama tíma á síðasta ári. Nokkur af þessum málum eru þegar upplýst en önnur í rannsókn.
Í gær voru þrír menn úrskurðaðir í viku gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að fjölda innbrota og þjófnaða, bæði í fyrirtæki og heimili. Í morgun handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tvo menn á Vesturlandsvegi sem voru með nokkuð magn af ætluðu þýfi meðferðis, einkum verkfærum, sem talin eru vera úr innbrotum í Mosfellsbæ. Þá voru einnig handteknir menn í morgun í Hafnarfirði grunaðir um aðild að innbrotum.
Fregnir herma einnig að þjófur hafi verið á ferðinni í Þjóðarbókhlöðunni. Í gær var stolið þar fartölvu og fyrir helgina var veski stolið. Brýnt er fyrir gestum bókhlöðunnar að skilja ekki eftir verðmæti á lesborðum ef þeir bregða sér frá.
Upplýsingar um forvarnir vegna innbrota og þjófnaða má finna á lögregluvefnum.