VG mótmælir útboði á starfsemi gistiskýlis að Þingholtsstræti

Fulltrúi Vinstri grænna lét færa til bókar á fundi Velferðarráðs að það valdi vonbrigðum að meirihluti Velferðarráðs skuli hafa haldið til streitu fyrirætlunum sínum um útboð á starfssemi gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25.

„Fyrir hálfu öðru ári ákvað Velferðarráð að taka rekstur gistiskýlisins úr höndum einkaaðila og setja hann í hendur Velferðarsviðs sem tilraunaverkefni í 2 ár. Þetta var gert með það að markmiði að fylgjast betur með aðstæðum gestanna og tryggja þar með markvissari vinnslu í málefnum hlutaðeigandi, skapa meiri nálægð og þar með þekkingu á leiðum til úrbóta. Til vinnu voru ráðnir menn sem hafa áralanga reynslu af starfi með alkahólistum og geðsjúkum.

Starfsmenn skýlisins hafa mætt skjólstæðingum á þeirra eigin forsendum og með það í huga að yfirleitt er um mjög veika einstaklinga að ræða. Því verður ekki á móti mælt að rekstur gistiskýlisins hefur verið með miklum sóma. Um það vitna starfsmenn þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og lögreglu. Það var því mikið áfall fyrir gesti jafnt sem starfsmenn þegar meirihluti Velferðarráðs ákvað að rjúfa feril tveggja ára verkefnis og segja starfsmönnum upp frá og með 1. nóvember sl og bjóða reksturinn út.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur ótrúlegur seinagangur einkennt málið því það mátti vera öllum sem til þekkja ljóst að mikið rót yrði á rekstrinum strax og uppsagnirnar tóku gildi. Það umrót hefur leitt til þess að ekki hefur tekist að fullmanna starfssemina að undanförnu sem síðan varð til þess til að loka þurfti húsinu aðfararnótt síðastliðins sunnudags og nokkrir heimilislausir karlmenn höfðu ekki í nein hús að venda þá nótt. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að nýr meirihluti fólks sem sumt hvað er búið að bíða í 12 ár eftir að fá að stjórna eftir eigin höfði skuli vera orðið óþreyjufullt og vilja breyta strax. En væri ekki nær að rugga bátnum annarsstaðar? Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði lýsir sig algerlega andvígan fyrirhuguðum breytingum á starfsemi gistiskýlisins að Þingholtstræti 25 og lýsir fullri ábyrgð á hendur meirihlutanum á þeim skaða sem þær hafa og munu valda," að því er segir í bókun VG í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert