Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, segist vísa öllum ummlælum um forkastanleg og ómálefnaleg vinnubrögð til föðurhúsanna og segir að í fáum málum hafi verið unnið jafn mikið og að frumvarpi um Ríkisútvarp. Fulltrúar stjórnarandstöðu í menntamálanefnd sendu í dag Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, bréf þar sem óskað var eftir því að hún hlutaðist til um að afgreiðslufundi nefndarinnar um frumvarpið yrði frestað.
Óskuðu fulltrúar stjórnarandstöðu eftir frestuninni svo svigrúm gæfist til að fara yfir bréf sem farið hafa milli fjármálaráðuneytisins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en nefndarmeðlimir fengu bréfin í hendur síðdegis í gær. Segir í bréfinu til forseta Alþingis að sá rúmlega sólarhringsfrestur sem gefinn hafi verið til að fara yfir gögnin sé of stuttur, og kalla stjórnarandstæðingar það forkastanleg og ómálefnaleg vinnubrögð, sem séu í ósamræmi við áherslur þingsins á vönduð vinnubrögð.
Sigurður Kári segir samkomulag liggja fyrir, sem gert hafi verið þegar málinu var frestað, um að þriðja umræða hefjist þann 15. janúar, og ætlunin sé að standa við það samkomulag.
„Ég fékk fréttir af því að þessi gögn væru til staðar í vikunni, og fór þess á leit að beiðni fulltrúa stjórnarandstöðu að fá gögnin afhent. Ég hef frá upphafi reynt að verða við öllum beiðnum stjórnarandstöðunnar eins og hægt er, og þegar talað er um forkastanleg og ómálefnalega vinnubrögð leyfi ég mér að vísa slíkum ummælum til föðurhúsanna”, segir Sigurður.
Fulltrúar fjármálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis voru kallaðir á fund menntamálanefndar í dag og var þar farið yfir þau atriði sem fram koma í bréfunum.
Sigurður Kári segir þá yfirferð hafa verið skýra að sínu mati, fjallað hafi verið um þær spurningar sem ESA hafði fram að færa gagnvart ráðuneytunum varðandi málið og að ráðuneytin hafi svarað. Þá segir Sigurður að ekkert komi fram í bréfunum sem setji málið í uppnám og því standi til að ljúka málinu á fundi nefndarinnar á morgun.
Ennfremur segist Sigurður Kári ekki bera ábyrgð á því að þessi gögn bárust ekki fyrr. „Ég hafði ekki hugmynd um tilvist þeirra, en óskaði eftir þeim um leið og ég frétti af þeim”. Ráðuneytin voru að sögn Sigurðar spurð að því hvers vegna þau hefðu ekki verið lögð fram og fengust þau svör að ekki hefði verið óskað eftir þeim.
Sigurður Kári segist á þeirri skoðun að þetta sé ekki heppilegt, og að ráðuneytin verði að svara fyrir það hvers vegna svona hafi verið haldið á málum, en það muni hann taka upp við viðkomandi ráðuneyti. Öll gögn þurfi að liggja á borðunum í málum eins og þessu, þar sem reynt sé að vanda sem best til verks.