Kennarar í Foldaskóla í Reykjavík samþykktu á fundi ályktun þar sem skorað er á Launanefnd sveitafélaga að verða nú þegar við kröfum kennara um leiðréttingu á launalið samnings Félags grunnskólakennara og Launanefndar.
Í ályktuninni er vísað í grein 16.1 í kjarasamningi þar sem segir, að aðilar skuli taka upp viðræður fyrir 1. september 2006 og meta hvort breytingar á skólakerfinu eða almenn efnahags- og kjaraþróun gefi tilefni til viðbragða og ákveða þær ráðstafanir sem þeir verða sammála um.
Í ályktun kennaranna segir, að með hliðsjón af verðbólgu og leiðréttingu, sem gerð var á launum félagsmanna ASÍ, leikskólakennara, þroskaþjálfa, bankamanna og æðstu ráðamanna þjóðarinnar, þyki þeim full ástæða til að laun þeirra verði leiðrétt í samræmi við aðra.
„Í ljósi þessa gerum við þá afdráttarlausu kröfu til viðsemjenda okkar að þeir standi við það ákvæði í kjarasamningnum sem til er vísað og komi nú þegar til móts við kennara með raunsæjum og ábyrgum aðgerðum," segir síðan.