Eldur kom upp í skemmtistaðnum Shooters í Engihjalla í Kópavogi í nótt. Lögreglan segir að um miðnætti hafi verið límdur flugeldur á rúðuna og hann sprengdur en ekkert gerðist. Tilkynnt var síðan um eldinn klukkan hálf þrjú í nótt. „Rúðan var brotin og það var eldur fyrir innan, ekki mikill en, skemmdir urðu af völdum reyks," sagði lögreglan í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Vitni sáu tvo menn á rauðri Toyota Corolla skutbifreið í grenndinni og leitar nú lögreglan hennar.
Staðurinn var mannlaus en rýma þurfti nærliggjandi matvöruverslun sem opin er allan sólarhringinn.
Í nótt voru einnig tveir ungir drengir stöðvaðir í Kópavogi af lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Þeir reyndust vera með sjóðsvél sem þeir áttu ekki í aftursætinu á bifreið sinni. Í ljós kom að þeir höfðu brotist inn í fyrirtæki í Hlíðarsmára. Þeir viðurkenndu verknaðinn og verða yfirheyrðir nánar í dag. Piltarnir eru á átjánda og sextánda ári.