Stjórnvöld krefjast þess að í nýjum samningi milli sauðfjárbænda og stjórnvalda verði svokölluð útflutningsskylda afnumin. Viðræður um samninginn eru langt komnar, en núverandi samningur rennur út í lok þessa árs. Rætt er um að nýr samningur gildi til sex ára og að hann feli í sér svipuð fjárútlát fyrir ríkissjóð og núverandi samningur.
Útflutningsskylda felur í sér að bændur skuldbinda sig til að selja hluta af framleiðslu sinni á erlenda markaði. Á síðasta ári voru flutt út um 700 tonn af lambakjöti. Það er mun minna en árin þar á undan.
Lambakjötið er eina kjöttegundin sem um gilda sérstakar reglur sem þvinga framleiðendur og sláturleyfishafa til að flytja hluta framleiðslunnar á erlenda markaði. Að mati landbúnaðarráðuneytisins eru þessar reglur úreltar og fela í sér truflandi áhrif á verðmyndun. Mikil andstaða er hins vegar meðal bænda við að gera þessa breytingu. Þeir telja að afnám útflutningsskyldu muni raska jafnvægi á kjötmarkaði og sé fallið til þess að rýra kjör bænda.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa stjórnvöld gert forystu bænda grein fyrir því að þau muni ekki gera nýjan sauðfjársamning nema útflutningsskyldan verði felld niður. Spurningin sé aðeins hvort það gerist í upphafi samnings eða síðar á samningstímanum. Samningaviðræður eru núna á viðkvæmu stigi og óljóst hvenær þeim lýkur.
Samkvæmt fjárlögum þessa árs renna 3,2 milljarðar til sauðfjárframleiðslunnar, þar af fara um 1,7 milljarðar í beingreiðslur til bænda.