Síminn lýkur við uppbyggingu farsímanets á Hringveginum

Þegar uppbyggingu farsímanetsins verður lokið geta vegfarendur um Möðrudalsöræfi hringt …
Þegar uppbyggingu farsímanetsins verður lokið geta vegfarendur um Möðrudalsöræfi hringt og fengið upplýsingar um færð. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Farskiptasjóður og Síminn hf. skrifuðu í dag undir samkomulag um að Síminn taki að sér verkefni við uppbyggingu GSM-farsímanetsins. Þrjú tilboð bárust í lokuðu útboði að undangengnu forvali, tvö frá Símanum hf., annað uppá 598 milljónir króna og frávikstilboð uppá 535 milljónir, og eitt frá Og fjarskiptum ehf. uppá 669 milljónir. Samið var við Símann á grundvelli frávikstilboðs og var endanleg samningsupphæð 565 milljónir króna.

Meðal markmiða í fjarskiptaáætlun 2005 til 2010 er að þétta GSM farsímanetið, að það verði aðgengilegt á Hringveginum, öðrum helstu stofnvegum og helstu ferðamannasvæðum landsins. Ákveðið var að viðhafa tvö útboð og er gengið til samninga nú vegna fyrra útboðsins en stefnt er að útboði vegna síðari hluta verkefnisins á fyrri hluta þessa árs, að því er segir í tilkynningu.

Farsímasamband á öllum Hringveginum eftir 12 mánuði

Verkefnið nú snýst um að ljúka GSM-væðingu hringvegarins en á honum eru nokkrir mislangir kaflar án farsímasambands, sá lengsti um 80 km á Möðrudalsöræfum. Einnig verður farsímakerfið bætt á fimm fjallvegum: Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjalli, Fagradal og Fjarðarheiði. Alls verður farsímasamband bætt á um 500 km vegalengd á þessum vegum öllum. Með í útboðinu nú er einnig uppsetning á sendi í Flatey á Breiðafirði. Mun hann ná til nærri helmings vegarins um Barðaströnd þar sem farsímaþjónustu nýtur ekki við í dag. Samkvæmt tilboðinu á verkinu að ljúka á 12 mánuðum frá dagsetningu undirritunar samningsins.

„Rökin fyrir því að leggja áherslu á Hringveginn í þessu fyrra útboði eru meðal annars þau að hann er ein megin samgönguæð landsins og liggur um flesta landshluta. Um hann er mikil umferð einka- og atvinnubíla árið um kring og öruggt farsímasamband á öllum Hringveginum er liður í auknu umferðaröryggi á þessari mikilvægu samgönguleið.

Rökin fyrir vali á fjallvegunum fimm eru meðal annars þau að þeir eru allir mikilvægir, eru á svæðum utan Hringvegarins og liggja allir hátt og vetrarfærð því oft erfið," að því er segir í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

Í síðara farsímaútboðinu er ráðgert að auka farsímaþjónustu á nærri 1.300 km vegalengd á stofnvegum og á nokkrum ferðamannasvæðum. Sem dæmi um verkefni má nefna svæði á leiðinni milli suður- og norðurhluta Vestfjarða, vegarkafla í Barðastrandasýslum, leiðina milli Siglufjarðar og Sauðárkróks, svæði á Norðausturlandi og vegarkaflar á Austfjörðum.

Samkvæmt fjarskiptaáætlun er stefnt að því að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðaneti á þessu ári. Samkvæmt því er ráðgert að bjóða út uppbyggingu á háhraðaþjónustu á næstu mánuðum. Unnið er að því að kortleggja hvar háhraðatenging er ekki fyrir hendi og hvaða kröfur á að gera til þjónustu. Samkvæmt bráðabirgðatölum eru í dag 1.603 lögbýli í dreifbýli án háhraðatengingar og 69 til viðbótar í þéttbýli. Það þýðir að um 6.300 manns hafa ekki möguleika á háhraðatengingum. Fyrir rúmum tveimur árum var þessi fjöldi um 22 þúsund. Næsti liður í greiningunni er að fara yfir málið með markaðsaðilum og kanna hvar þeir hyggja á frekari uppbyggingu. Í framhaldinu verður ljóst á hvaða svæðum fjarskiptasjóður muni stuðla að uppbyggingu á.

Einnig er verið að undirbúa samning í kjölfar útboðs á liðnu hausti um dreifingu á dagskrá RÚV í gegnum gervihnött. Tilboð bárust í lok nóvember og er vonast til að unnt verði að ganga frá samningi um verkefnið í lok þessa mánaðar. Frá undirritun samnings og þar til útsendingar verða komnar í gang munu líða um tveir mánuðir. Það þýðir að almenningur í hinum dreifðu byggðum og sjómenn geti farið að nýta þjónustuna í apríl, samkvæmt fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert