Ágúst Einarsson settur í embætti rektors á Bifröst

Dr. Ágúst Einarsson var settur í embætti rektors við Háskólann …
Dr. Ágúst Einarsson var settur í embætti rektors við Háskólann á Bifröst í dag. mbl.is

Dr. Ágúst Einarsson var settur í embætti rektors við Háskólann á Bifröst við hátíðlega athöfn í Hriflu, hátíðarsal skólans klukkan 12:30 í dag að viðstöddu margmenni úr háskólaþorpinu sem og nýskipaðrar stjórnar skólans.

Ágúst sagði í ræðu sinni að hann liti til bjartra tíma fyrir þróun háskólastarfsins á Bifröst. Hann lagði áherslu á að nemendur ættu að vera hamingjusamir bæði hér á Bifröst og almennt í lífinu.

Ágúst stundaði nám í rekstrarhagfræði við Háskólann í Hamborg og Kiel í Þýskalandi og varði síðar doktorsritgerð sína við Háskólann í Hamborg árið 1978.

Ágúst hefur starfað sem prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1990. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnun í atvinnulífinu sem og stjórnmálum og sat meðal annars á Alþingi Íslendinga á árunum 1978-79 og 1995-99. Hann hefur setið í stjórn fjölda íslenskra fyrirtækja og tekið að sér formennsku og trúnaðarstörf ýmissa félaga.

Ágúst hefur ritað nokkrar bækur og fjölmargar greinar um efnahagsmál, hagfræði, stjórnmál og sjávarútvegsmál sem hafa birst í innlendum og erlendum bókum, blöðum og tímaritum.

Ágúst fæddist í Reykjavík árið 1952, sonur hjónanna Einars Sigurðssonar útgerðarmanns frá Vestmannaeyjum og Svövu Ágústsdóttur. Ágúst er kvæntur Kolbrúnu Ingólfsdóttur lífeinda- og sagnfræðingi og eiga þau þrjá syni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert