Grunaðir um að hafa verið undir áhrifum kókaíns

Ökumaður, sem var á ferð um Svínahraun á laugardagsmorgun, tilkynnti til lögreglu að hann hefði komið að bíl, sem hafði lent á víragirðingu sem skilur að akreinar vegarins og að í bílnum væru þrír menn sem virtust allir ölvaðir.

Ökumaðurinn tók mennina upp í bíl sinn og ók þeim að Litlu kaffistofunni þar sem lögreglumenn komu og handtóku þremenningana. Þeir voru fluttir á lögreglustöðina á Selfossi þar sem þeir voru vistaðir í fangageymslum. Við yfirheyrslur neituðu allir að hafa ekið.

Lögreglan segir, að fyrir utan að mennirnir voru allir ölvaðir höfðu tveir þeirra verið sviptir ökurétti og hefur lögreglan á Selfossi í haust og vetur ítrekað haft afskipti af öðrum þeirra fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Grunur er um að allir mennirnir hafi verið einnig undir áhrifum kókaíns.

Mönnunum var sleppt að loknum yfirheyrslum en málið er í rannsókn. Bíllinn, sem þeir voru í, skemmdist nokkuð og sex staurar í vírariðinu brotnuðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert