Stjórnarformaður Byrgisins segist fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar

Guðmundur Jónsson, stjórnarformaður Byrgisins.
Guðmundur Jónsson, stjórnarformaður Byrgisins.

Guðmundur Jónsson, stjórnarformaður Byrgisins, sagði í síðdegisútvarpi Rásar 2, að hann hefði að mörgu leyti verið hissa á ýmsum atriðum sem komu fram í bókhaldi Byrgisins og skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur heimilisins. Hann sagðist jafnframt fagna skýrslunni og því að henni hefði verið vísað til ríkissaksóknara því það væri forsenda þess að ýmislegt yrði leitt í ljós. Sagði Guðmundur málið pólitískt frá A til Ö.

Guðmundur sagði að um hver áramót hefði hann þurft að taka lán til að brúa bilið milli útgjalda og tekna.

Aðspurður um VISA-kort, sem fjallað er um í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sagði Guðmundur, að umrætt kort væri hans einkakort og eignarhaldsfélags Byrgisins, sem er í eigu Guðmundar. Sagði Guðmundur að oft hefði þurft að brúa bilið tímabundið með kortinu en hann hefði ekki átt von á öðru, en það væri sundurskilið í uppbjöri og bókhaldi hvað væri hans einkaneysla og hvað neysla Byrgisins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um söfnunarfé og sagt að ekki hafi verið gerð tilhlýðileg grein fyrir því hvað um það varð. Guðmundur sagði, að sá sem safnaði hefði fengið hluta fjárins og Guðmundur sjálfur hefði fengið 1 milljón sem laun. Hins vegar væri beðið eftir upplýsingum frá banka um hver hefði tekið út afganginn, en það sagðist Guðmundur ekki hafa gert.

Þegar Guðmundur var spurður hver hann teldi að hefði tekið peningana út, sagðist hann hafa átt við mjög óstöðugt umhverfi að etja síðustu átta mánuði. Hann sagðist hafa reynt að halda utan um þær sálir, sem komu í Byrgið, og þær hefðu fengið góða meðferð, „hvorki káf né kitl," sagði Guðmundur.

Í skýrslunni kemur fram, að á síðasta ári byrjuðu aðstandendur fyrrum vistmanns, sem þá var nýlátinn, að safna fyrir Byrgið. Framlög voru lögð inn á reikning, sem reyndist í eigu Byrgisins og millifærði Guðmundur fél jafnharðan inn á eigin reikning.

Guðmundur sagði að enginn hefði haft hugmynd um, að verið væri að leggja inn á þennan reikning sem söfnunarreikning vegna andláts þessa manns. Guðmundur sagðist því hafa fært fé af reikningnum sem laun til sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert