Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, sagði á blaðamannafundi nú síðdegis, að ákveðið hafi verið að hætta styrkveitingu til Byrgisins, eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um fjármál Byrgisins barst. Einnig hefur verið ákveðið að vísa fjármálum Byrgisins til ríkissaksóknara eins og Ríkisendurskoðun lagði til í skýrslunni. Forstöðumanni Byrgisins var greint frá þessu fyrr í dag. Samhjálp mun taka við þeim rekstri, sem verið hefur á vegum Byrgisins á Efri-Brú í Grímsnesi.
Magnús sagði, að hann hefði rætt um málefni skjólstæðinga Byrgisins við landlækni og Samhjálp. Sagði hann að sex einstaklingar hefðu verið í Byrginu síðustu daga. Magnús sagði, að landlæknir muni hafa milligöngu um að útvega lækna til að sinna almennum læknisstörfum sem umræddur hópur kann að þarfnast.
Þá sagðist Magnús telja, að Samhjálp muni taka við rekstri meðferðarstöðvar í því húsnæði, sem Byrgið hefur haft yfir að ráða.
Fram kom í máli Magnúsar, að félagsmálaráðuneytið hefði ekki vikist undan því að viðurkenna, að það hefði mátt vera betra eftirlit með starfsemi Byrgisins og fleiri stofnana. Sagði hann að verið væri að fara yfir innra eftirlit hjá ráðuneytinu með greiðslum, sem heyra undir ráðuneytið og renna úr ríkissjóði til ýmissa samtaka. Þá vísaði Magnús til þess, að málefnum Byrgisins hefði verið vísað til Ríkisendurskoðunar í byrjun nóvember. Það hefði verið gert, eftir að forstöðumaður Byrgisins kom á fund Magnúsar í byrjun nóvember og óskaði eftir nýjum þjónustusamningi.
Magnús sagðist aðspurður ekki geta svarað því, hvort einhver innan stjórnkerfisins verði dreginn til ábyrgðar vegna mála Byrgisins. Þá sagði hann, að gengið yrði frá samstarfinu við Samhjálp í fullu samráði við Ríkisendurskoðun og í þeim samningum, sem félagsmálaráðuneytið hefði gert síðustu mánuði, væru gerðar ríkari kröfur um árangursmat og eftirlit en áður var.
Þar sem starfsemi Byrgisins hefur farið fram í húsnæði Fasteigna ríkissjóðs á Efri-Brú í Grímsnesi hefur Fasteignum ríkissjóðs verið tilkynnt um niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og ákvörðun ráðuneytisins. Óskað hefur verið eftir því að Fasteignir ríkissjóðs fari þegar yfir gildandi afnotasamning stofnunarinnar við Byrgið í ljósi þeirra aðstæðna sem upp hafa komið.
Að tillögu dómsmálaráðherra mun hópur á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis, undir forystu Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, skipaður fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, fjalla um málefni langt leiddra vímuefnaneytenda, m.a. með tilliti til fjölgunar úrræða fyrir þann hóp í framtíðinni.