Af Íslands hálfu var áherzla lögð á það á fundunum að kynna fyrir brezkum stjórnvöldum þá hugsun, sem liggur að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar að efna til tvíhliða viðræðna um öryggis- og varnarmál við fjögur NATO-ríki eftir að bandaríska varnarliðið hvarf á brott frá Íslandi.
Í íslensku viðræðunefndinni voru Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Sturla Sigurjónsson, ráðgjafi í utanríkismálum í forsætisráðuneytinu, og Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.
Grétar Már sagði í samtali við Morgunblaðið eftir fundahöldin í London að fundirnir hefðu verið á jákvæðum nótum, en þar hefði fyrst og fremst farið fram upplýsingagjöf af hálfu Íslendinga. Sturla sagði að hann teldi að Bretar hefðu skilning á sjónarmiðum Íslendinga varðandi öryggismál á Norður-Atlantshafi.
Geir H. Haarde forsætisráðherra gaf á leiðtogafundi NATO í Riga í nóvember fyrirheit um að Íslendingar myndu leggja meira af mörkum til friðargæzlu á vegum bandalagsins, meðal annars með því að leggja til þungaflutninga með flugvélum.