Deilur um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. héldu áfram þegar þingfundur hófst á Alþingi í morgun. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, gerði að umtalsefni í upphafi fundarins grein, sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri, skrifaði í Morgunblaðið í gær. Vildi Ögmundur vita hvort menntamálaráðherra væri sammála því, sem útvarpsstjóri setti þar fram en Ögmundur sagði að Páll færi með ósannindi í greininni.
Ögmundur sagði, að í greininni segði Páll m.a. að starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins styddu breytingar á rekstarformi RÚV. Ögmundur sagði hins vegar, að stéttasamtök starfsmanna RÚV væri öll frumvarpinu algerlega ósammála og vildu að því sé vísað frá. Þá sagði Ögmundur, að útvarpsstjóri hefði sjálfur látið gera Gallup-könnun, sem vísað væri til í greininni og sýndi að 60% þjóðarinnar væru sammála breytingu RÚV í opinbert hlutafélag. Sagði Ögmundur, að sú könnun væri afar misvísandi.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að útvarpsstjóri færi mikinn í áróðri fyrir frumvarpinu og yrði að hugsa sinn gang. Hlynur Hallsson, flokksbróðir hans, sagði að Páll liti greinilega á sig sem ríkisútvarpsstjóra ríkisstjórnarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, velti því fyrir sér hvort hægt væri að treysta fréttum Ríkisútvarpsins af málefnum RÚV í ljósi þeirra skoðana og árása á andstæðinga frumvarpsins, sem Páll Magnússon hefði sett fram.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði það ekkert nýtt að forstöðumenn ríkisstofnana tjáðu sig um frumvörp, sem tengdust stofnunum þeirra. Sagði hún, að forstöðumenn ættu að starfa eftir sannfæringu sinni en útvarpsstjóri hefði sagt, að hann teldi það skyldu sína að fjalla um þau mál sem þjónuðu hagsmunum Ríkisútvarpsins.
Þriðja umræða um frumvarpið hófst á Alþingi í gær og stóð framundir miðnætti. Umræðunni verður haldið áfram í dag og er ekkert annað mál á dagskrá. Þegar fundur hófst í dag voru 10 þingmenn á mælendaskrá.