Margrét Sverrisdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Frjálslynda flokksins, en kosið verður í embættið á landsþingi flokksins 27. janúar næstkomandi. Hún hefur verið í forystu flokksins í níu ár, eða frá stofnun hans árið 1998, lengst af sem ritari og framkvæmdastjóri. Hún segist jafnframt óska eftir að leiða lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Í fréttatilkynningu frá henni segir: „Til að Frjálslyndi flokkurinn höfði til breiðari hóps kjósenda en hann gerir nú tel ég mikilvægt að konur jafnt sem karlar skipi þar æðstu stöður. Í mínum huga leikur enginn vafi á að það lyfti ásýnd flokksins að kona gegni öðru æðsta embættinu. Ég tel það ekki þjóna hagsmunum flokksins best að ég fari gegn núverandi formanni. Því er ekki að leyna, að deilur hafa verið uppi innan flokksins að undanförnu. Þær deilur er hins vegar hægt að setja niður og ég er þess fullviss að sem varaformaður flokksins mun ég eiga gott samstarf við formanninn.
Með störfum mínum síðastliðinn áratug hef ég lagt grunn að vaxandi velgengni Frjálslynda flokksins á landsvísu. Ég hef starfað að stefnumótun flokksins frá upphafi og verið talsmaður hans við fjölmörg opinber tækifæri. Þessu til viðbótar má nefna setu mína í fjölda nefnda og ráða gegnum tíðina, sem fulltrúi flokksins. Auk þess hef ég gegnt starfi varaborgarfulltrúa í Reykjavík á annað kjörtímabil. F-listinn í Reykjavík náði einstaklega góðum árangri í borgarstjórnarkosningunum sl. vor þegar hann fékk rúm 10% atkvæða. Af öðrum félagsmálum má nefna störf mín fyrir Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins, þar sem ég er formaður, og Kvenréttindafélag Íslands, þar sem ég gegni varaformennsku.
Fyrst og fremst tel ég mig eiga erindi í varaformennsku í Frjálslynda flokknum á grundvelli þeirra málefna, sem eru og verða mér hugleikin. Þar ber hæst mennta- og heilbrigðismál, sem og málefni þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu, s.s. fatlaðra og aldraðra. Sem varaborgarfulltrúi F-listans hef ég valið að sitja í velferðarráði og menntaráði borgarinnar. Hvað málefni innflytjenda varðar, þá vil ég taka fastar á þeim málum en gert hefur verið hingað til. Það þarf að bregðast skjótt við til að leita lausna á þeim vanda sem óheft flæði vinnuafls hefur þegar skapað. Ég hef lengi barist gegn óréttlæti kvótakerfisins og er mótfallin átroðningi á náttúru Íslands en legg áherslu á skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda okkar.”