Neytendastofa hefur beint þeim tilmælum til Eddu-útgáfu að hún beiti framvegis nákvæmni í auglýsingum sínum. Tilefnið er auglýsing frá fyrirtækinu í byrjun desember þar sem sagt var að Ljósið í djúpinu væri mest selda ævisagan á þeim tíma. Útgáfan Nýhil kvartaði yfir þessu og benti á, að samkvæmt metsölulistum, sem voru þá nýbirtir hafi metsölubókin í flokki ævisagna verið Hannes – Nóttin er blá, mamma.
Í niðurstöðu Neytendastofu, sem birt er á heimasíðu Nýhils, kemur fram að stofnunin sendi Eddu–útgáfu bréf í tilefni erindis Nýhils. Í bréfi Neytendastofu var óskað athugasemda og skýringa frá Eddu–útgáfu en engin svör bárust. Erindið var ítrekað 21. desember en ekkert svar barst heldur.
Neytendastofa segir, að erindi með erindi Nýhil hafi fylgt frétt af fréttavef Morgunblaðsins 30. nóvember sl. þar sem segir m.a., að Hannes – Nóttin er blá, mamma sé í fyrsta sæti bóka í flokki ævisagna. Segi í fréttinni að hún byggi á könnunum sem fram fóru á Íslandi dagana 21.–27. nóvember sl.
Þar sem Edda–útgáfa hafi ekki sýnt fram á að fréttin sé röng verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framangreind auglýsing sé í andstöðu við þær skoðanakannanir sem fréttin byggi á. Því fái Neytendastofa ekki annað séð en að auglýsingin brjóti í bága við lög um óréttmæta viðskiptahætti.