Fjórir eru ákærðir í þessum hluta málsins; Jón Ásgeir Jóhannesson og tveir endurskoðendur fyrir brot á lögum um ársreikninga. Jón Ásgeir og Kristín systir hans eru einnig bæði ákærð fyrir að hafa brotið tollalög með því að greina ranglega frá kaupverði tveggja bíla.
Fyrir dómi í gær sagði Gestur Jónsson hrl., verjandi Jóns Ásgeirs, að greinargerð Sigurðar Tómasar og nýtt skjal sem hann lagði fram í gærmorgun hefði orðið til þess að flækja málið enn frekar, þokan yfir málatilbúnaði ákæruvaldsins hefði enn sortnað. Í raun væri um að ræða gjörbreytt mál frá upphaflegu ákærunni. „Þetta er ekki sama málið og var flutt í héraðsdómi, þetta er allt annað mál,“ sagði hann.
Þessu hafnaði Sigurður Tómas og sagði að einungis væri um að ræða eðlilegar breytingar á ákæruefnunum sem m.a. skýrðust af því að héraðsdómi um sýknu Jóhannesar Jónssonar og Tryggva Jónssonar var ekki áfrýjað. Þá sagði hann rangt að halda því fram að enginn hefði tapað á meintum brotum Jóns Ásgeirs. Þetta væri sambærilegt og ef svikull fjósamaður tæki upp á því að teyma kýr úr fjósi, sem honum hefði verið treyst fyrir, og yfir í sitt eigið fjós. Þar myndi hann mjólka þær og hirða sjálfur gróðann. „Peningar eru kýr nútímans, þeir mjólka,“ sagði hann.
Þegar Sigurður Tómas hafði lokið við að veita andsvör við ræðum verjenda spurðu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson hann nánar út í málatilbúnaðinn. Kom fram í svörum hans að tengsl endurskoðendanna við tiltekna refsiverða háttsemi hefðu dofnað og væru orðin losaralegri eftir að ákærunni var breytt.