Spyr um veisluhöld í Ráðherrabústaðnum

Mörður spyr um veislu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hélt í haust.
Mörður spyr um veislu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hélt í haust. mbl.is/Sverrir Vilhjálmsson

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur beint fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra um afnot af Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Spyr hann hvaða ráðherra hafi verið heimiluð afnot af bústaðnum að kvöldi 29. september 2006. Mörður segir, að þá muni þingflokkur Framsóknarflokksins hafa haldið veislu til að kveðja Halldór Ásgrímsson en samkvæmt reglum um afnot af bústaðnum séu það einungis ráðherrar sem hafa leyfi til að halda þar veislur.

„Þetta er ekki stórmál, en mér þykir rétt að fyrst ég hóf máls á því að klára málið,” sagði Mörður í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. „Ég hef aldrei vitað til þess að þingflokkar eða aðrir en ráðherrar héldu veislur í Ráðherrabústaðnum. Þetta segir mér að Framsóknarflokkurinn veit ekki lengur hvar skilin milli flokksins og ríkisins."

Mörður vill fá að vita hvaða ráðherra pantaði bústaðinn til að halda þetta hóf og hvort að forsætisráðherra telji það eðlilegt að ráðherrar útvegi Ráðherrabústaðinn til að halda síðan boð á vegum aðila utan Stjórnarráðsins eins og til dæmis þingflokks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert