Enn fundað í Noregi um síldarkvóta

Íslensk sendinefnd á vegum sjávarútvegsráðuneytisins situr nú fund í Noregi og ræðir síldarkvóta norsk-íslensku síldarinnar. Stefán Ásmundsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, fer fyrir íslensku sendinefndinni sem fór utan á sunnudag. Til stóð að ljúka fundarhöldunum í gær, en að sögn Stefáns standa viðræður enn yfir.

Stefán segir að stöðuna enn vera óljósa, þ.e. viðræður gætu teygst fram eftir degi eða lokið bráðlega. „Það gæti slitnað upp úr á næstu mínútum ef út í það færi, en það getur líka verið að við sitjum hérna talsvert áfram. Það er ómögulegt að segja á þessari stundu.“.

Auk Stefáns skipa þeir Ragnar Baldursson, hjá utanríkisráðuneytinu, og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sendinefndina.

„Það er ennþá mögulegt að við náum að klára þetta. Það er auðvitað mikilvægt fyrir alla að hafa heildstæðan samning. Við erum enn að freista þess að það geti gengið upp,“ segir Stefán.

Í haust lagði Alþjóða hafrannsóknaráðið ICES til að veiðar á norsk-íslensku síldinni verði auknar á þessu ári. Taldi ráðið hæfilegt að veiða 1.280.000 tonn af síld, en í fyrra var gert ráð fyrir að heildaraflinn hafi numið 967.000 tonn.

Noregur, Ísland, Rússland, Færeyjar og Evrópusambandið nýta norsk-íslensku síldina. Á síðasta áratug gerðu þjóðirnar með sér samkomulag um skiptingu leyfilegs heildarafla, en síðustu árin hefur ekkert samkomulag verið í gildi að þessir aðilar selt sér sjálfdæmi.

Samkvæmt fyrri samningi aðildarríkjanna 1996 gerðu strandríkin samning um skiptingu veiða úr stofninum þannig að í hlut Noregs komu 57%, Íslands 15,54%, Rússlands 13,62%, ESB 8,38% og Færeyja 5,46%. Vegna krafna Normanna um aukna hlutdeild þeim til handa hefur samkomulagið verið í uppnámi frá árinu 2003.

Fundað var um norsk-íslensku síldina í desember sl. en ekki náðust samningar þar sem ekki var unnt að ganga að kröfum Norðmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert