Bílstjóri snjóruðningstækis, sem var við störf í Reykjavík í nótt, kom að brekkunni sem liggur af Kringlumýrarbraut til norðurs upp á Bústaðaveg í morgun en ákvað að hverfa frá þar sem honum sýndist árekstur hafa orðið í brekkunni og hann vildi ekki tefja umferð þar meira en nauðsyn var á. Ekki var tilkynnt um neinn árekstur á þessum stað til lögreglu í morgun en lögregla segir þó vel hugsanlegt að árekstur hafi orðið þar og ökumenn fyllt sjálfir út tjónablöð vegna hans.
Sighvatur Arnarsson, forstöðumaður gatna- og eignaumsýslu Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að umrædd brekka sé upphituð en að hún sé þó oft erfið, sérstaklega í skafrenningi en þá myndist gjarnan íshella á henni. Starfsmenn borgarinnar reyni því að fylgjast með henni líkt og umræddur starfsmaður hafi ætlað að gera í morgun. Þá segir hann bíl frá borginni hafa verið við snjómokstur í efri hverfum borgarinnar í alla nótt en að vegna skafrennings hafi áhersla verið lögð á snjómokstur til að halda stofnbrautum opnum.
Lögregla hafi síðan hringt og beðið um að fá saltbíl í umrædda brekku og hann hafi þá strax verið ræstur út. Nokkra stund taki þó að sækja salt og annað slíkt. Þá sagði Sighvatur að lögregla hafi talað um að aðstoða ökumann hans við að komast að brekkunni með því að heimila honum að aka á móti umferð. Þegar bílstjórinn hafi komið að Bústaðarveginum hafi hann hins vegar ekki fundið lögreglumann sér til aðstoðar og hafi hann því ákveðið að freista þess að komast að brekkunni með eðlilegum hætti. Það hafi þýtt það að hann þurfti að aka í Kópavog til að snúa við og síðan til baka eftir Kringlumýrarbrautinni en umferð um hana var þá mjög hæg vegna lokunar umræddrar brekku. Þetta hafi allt tekið sinn tíma og valdið því að brekkan var lokuð jafn lengi og raun bar vitni.
Sighvatur sagði jafnframt að hann teldi ekki við lögreglu að sakast í málinu enda hafi samvinna við lögreglu alltaf verið mjög góð í aðstæðum sem þessum. Þarna virðist einfaldlega hafa orðið einhvern misskilningur eða tilviljanir við erfiðar aðstæður og að það hafi tafið gang hlutanna.
Þá sagði hann 40 til 50 snjómoksturstæki nú vera að störfum út um allan bæ og að á morgnanna sé höfuðáhersla lögð á að halda stofnbrautum færum og moka frá leikskólum og grunnskólum til að börn komist í skóla og foreldrar þeirra áleiðis í vinnu.