Mikil umferðarteppa myndaðist er lögreglan í Reykjavík varð að loka afrein af Kringlumýrarbraut upp á Bústaðaveg á mesta annatíma í morgun vegna mikillar hálku en afreininni var lokað í þrjú korter þar sem ekki fékkst bíll frá borginni til að saltbera götuna.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu var hálka í brekkunni svo mikil að bílar á leið úr Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði komust ekki upp brekkuna og inn á Bústaðaveginn. Afreininni var því lokað um klukkan hálf átta í morgun vegna þessa og var lögregla um korter að aðstoða þá bíla sem þegar sátu fastir í brekkunni. Þá liðu um þrjú korter þar til saltbíll frá borginni kom á staðinn. Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Reykjavíkurborgar vegna þessa þar sem þeir eru á fundi.
Mikil umferðarteppa myndaðist vegna lokunarinnar og auk þess var öll umferð um borgina mjög hæg í morgun vegna hálku og skafrennings. Eitthvað var um minniháttar árekstra en ekki er vitað um slys á fólki.