Tillaga um að kosið verði um stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu

Tillaga um breytingu á stjórnarskrá Íslands var kynnt á fundum þingflokka nú síðdegis. Um er að ræða einu breytingartillöguna, sem stjórnarskrárnefnd leggur fram.

Jón Kristjánsson, formaður nefndarinnar, sagði við mbl.is, að tillagan væri um breytingu á 79. grein stjórnarskrárinnar og gerði ráð fyrir því að ef 2/3 hlutar þingmanna samþykktu breytingu á stjórnarskrá verði hægt að leggja þá breytingartillögu undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Gert er ráð fyrir að ef 25% kosningabærra manna samþykkja tillöguna í atkvæðagreiðslunni þá teljist hún samþykkt.

Jón sagði, að gert væri ráð fyrir því, að þetta yrði meginreglan varðandi stjórnarskrárbreytingar en hugsanlegt væri að gamla reglan verði áfram látin gilda ef um smávægilegar breytingar yrði að ræða. Samkvæmt núverandi ákvæði þarf að bera tillögur um breytingar á stjórnarskrá upp á tveimur þingum áður en hún tekur gildi sem lög.

Jón sagði, að ekki hefði náðst samstaða í nefndinni um aðrar tillögur um breytingar á stjórnarskránni að svo stöddu en lagt væri til að nefndin starfaði áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert