Jóhanna: Staða Byrgismálsins mjög alvarleg

Sigurður Þórðarson, ríkisendurskoðandi, kom á fund fjárlaga- og félagsmálanefnda Alþingis …
Sigurður Þórðarson, ríkisendurskoðandi, kom á fund fjárlaga- og félagsmálanefnda Alþingis í morgun og kynnti þar skýrslu um fjárhag Byrgisins. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi í upphafi þingfundar í dag, að ekki hafi verið fallist á að þingfundi yrði frestað svo félagsmálanefnd og fjárlaganefnd Alþingis gæfist betri tími til að fara yfir málefni Byrgisins en nefndirnar funduðu með ríkisendurskoðanda í morgun. Sagði Jóhanna, að staða þess máls væri miklu alvarlegri en hana hefði órað fyrir.

Jóhanna sagði, að hunsuð hefði verið sú ósk að halda áfram fundi nefndanna í morgun og óska eftir því að þingfundi var frestað. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, sagði að þótt fundi Alþingis hefði verið frestað um klukkutíma hefði það ekki dugað til að ljúka umfjölluninni í nefndunum og krafa um fundarfrestum væri hluti af spili stjórnarandstöðunnar til að þæfa umræðu um Ríkisútvarpsfrumvarpið.

Jóhanna sagði, að málið væri miklu alvarlegra en hana hefði grunað. Vísaði hún til þess, að skýrsla, sem unnin var um málefni Byrgisins árið 2002 hefði ekki verið kynnt fjárlaganefnd og ekki kynnt ríkisendurskoðanda. Alvarlegt væri, að meirihlutinn skyldi samt sem áður hafa haldið áfram fjárveitingum til Byrgisins því ljóst væri, að ekki hefði átt að semja við Byrgið árið 2003 miðað við þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir. Þá hefði eftirlit með starfsemi Byrgisins ekkert verið. Nýr fundur verður haldið í nefndum þingsins um Byrgismálið í fyrramálið.

Kristján Möller sagði, að Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, hefði haft vitneskju um skýrsluna, sem gerð var árið 2002 um Byrgið, en ekki gert fjárlaganefnd grein fyrir þeirri vitneskju eftir að hann varð formaður. Sagði Kristján að þetta væri vítavert.

Birkir Jón sagðist vona, að þverpólitísk samstaða væri um að kannað verði um hvernig fjármunum, sem varið er á fjárlögum til ýmissa aðila, sé varið. Birkir sagðist hafa komið að málinu af fullum heimildum og sagði að skýrslan um Byrgið, sem Kristján Möller minntist á, hefði m.a. komið til umræðu á Alþingi árið 2002.

Birkir Jón sagðist trúlega hefði átt að gangast eftir því, eftir að hann tók sæti í fjárlaganefnd þingsins 2003, að tryggja að eftirlit með málefnum Byrgisins væri viðunandi. Sagðist Birgir hins vegar hafa treysti þeim eftirlitsaðilum, sem ætti að hafa eftirlit með fjárlögum.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að umræða um málefni Byrgisins væri miklu mikilvægari en málefni Ríkisútvarpsins á þessum degi. Þegar Katrín fór fram yfir leyfilegan ræðutíma barði Sólvegi Pétursdóttir, þingforseti, í bjöllu sína og Katrín kvartaði þá yfir hávaða. Sólveig sagði að þingmenn ættu að gæta að ræðutímanum og sýna þingforseta kurteisi. „Sýndu þá þingmönnum kurteisi," sagði Katrín utan úr sal. Sólveig bað þá Katrínu að gæta orða sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka