Hagstofan segir, að talsverðar breytingar hafi orðið á trúfélagaaðild landsmanna á undanförnum áratugum. Í fyrsta lagi hafi skráðum trúfélögum fjölgað allmikið, eða úr 14 árið 1991 í 27 árið 2006. Í öðru lagi hafi þeim sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna fækkað jafnt og þétt á umræddu tímabili í hlutfalli við mannfjölda. Árið 1991 voru 92,2% landsmanna í Þjóðkirkjunni samanborið við 82,1% árið 2006.
Flest trúfélög utan Þjóðkirkjunnar eru smá og einungis sex telja fleiri en 1000 meðlimi. Sóknarbörnum í fríkirkjunum þremur (Fríkirkjunni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði) hefur fjölgað nokkuð á undanförnum árum og er hlutfall þeirra af heildarmannfjölda nú 4,7% samanborið við 3,1% árið 1991.
Af einstökum trúfélögum hefur meðlimum fjölgað langmest í kaþólsku kirkjunni. 2,4% landsmanna eru nú í kaþólsku kirkjunni samanborið við 1% árið 1991. Önnur trúfélög með fleiri en 1000 meðlimi eru Hvítasunnukirkjan og Ásatrúarfélagið. Meðlimum í Hvítasunnukirkjunni hefur fjölgað fremur lítið undanfarin ár eða úr 0,4% landsmanna 1991 í 0,6% 2006. Í Ásatrúarfélaginu hefur meðlimum aftur á móti fjölgað mjög ört. Félagið taldi rétt rúmlega 100 meðlimi 1991 en nú eru 0,3% landsmanna skráðir í Ásatrúarfélagið. Þá hefur þeim sem hafa skráð sig utan trúfélaga fjölgað úr 1,4% árið 1991 í 2,6% 2006.