Sorphirða torsótt í snjónum

Sorphirða í miklum snjó er gríðarlega erfitt starf og því …
Sorphirða í miklum snjó er gríðarlega erfitt starf og því er nauðsynlegt að greiða götu sorphirðumanna. mbl.is/Árni Sæberg

Sorphirða á höfuðborgarsvæðinu hefur síðast liðna viku verið torsótt verk og aðstæður erfiðar vegna snjóþyngsla og kulda. Í tilkynningu frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar segir að ekki sé hlaupið að því að sækja sorpílát bak við snjóskafla. Oft þurfa starfsmenn sorphirðunnar að berjast við margar hindranir til að koma tunnunum fram og til baka. Mælst er til þess að íbúar moki frá tunnunum svo að sorphirða geti farið fram.

„Þetta hefur verið geysilega erfið vika,“ segir Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri Sorphirðunnar. Hún segir að borgarbúar þurfi að koma til móts við sorphirðuna þegar snjóar og moka frá tunnunum þannig að sorphirða geti átt sér stað.

Á mörgum stöðum eru sorpílátin illa staðsett og starfsmenn þurfa að fara langar vegalengdir til að ná í þau og skila. Fara þarf í gegnum sund, garða og ómokaðar tröppur.

Sigríður segir álagið á starfsmenn feikilegt og mönnum sé hætt við að togna í baki, fótum eða höndum við erfiðið. „Við gefum íbúum iðulega einn eða tvo daga til að moka frá tunnunum og greiða leið okkar, en ef það gerist ekki þarf að skilja ómokaða staði eftir, “ segir hún.

Næsta laugardag verður unnið að því að klára verk vikunnar og mælist Sigríður til þess að fólk greiði götu starfsmanna Sorphirðunnar, hún leggur áherslu á að það sé eina leiðin til að fá góða þjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert