Þorgerður Katrín segist taka undir ummæli um grímulaust málþóf

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði í umræðum um Ríkisútvarpið ohf. að hún tæki undir þau ummæli Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, að stjórnarandstaðan héldi uppi grímulausu málþófi um frumvarpið.

Hvatti Þorgerður Katrín stjórnarandstöðuna til að stytta mál sitt, enda væri búið að segja flest það um frumvarpið sem segja þyrfti, og leyfa þingheimi að greiða atkvæði um málið. Gaf hún til kynna, að stjórnarandstaðan óttaðist, að það verði klofningur í málinu í atkvæðagreiðslu.

Ráðherra sagði að með frumvarpinu væri tekið skref inn í framtíðina fyrir ríkisútvarpið og almenning til að geta notið sem mestrar og bestrar innlendrar dagskrár.

Margir þingmenn vildu veita andsvar við ræðu Þorgerðar Katrínar en aðeins fjórir fengu orðið. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði að Þorgerður Katrín hefði litlu svarað í ræðu sinni og ekki þorað að ræða réttindamál starfsmanna. Þorgerður Katrín mótmælti þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert