Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir að stefna eigi að því að Ísland verði áfram herlaust land á friðartímum. Í erindi sem hún flutti um öryggis- og varnarmál í Háskóla Íslands, kom fram að ekki séu uppi nein áform um að setja á fót íslenskan her. Slíkt samræmist að hennar mati ekki grunngildum íslensku þjóðarinnar.
„Ísland er nú herlaust land, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld. Sannast sagna hefur reynslan á þeim mánuðum sem liðnir eru frá brotthvarfi Bandaríkjahers styrkt mig í þeirri trú að við eigum að stefna að því að svo verði áfram á friðartímum. Framfarir í varnartækni og aukin aðkoma að eigin varnarmálum gera okkur kleift að tryggja varnir landsins án þess að hér sé staðsett herlið að staðaldri. Ég vil leggja áherslu á að það eru engin áform um að setja á fót íslenskan her, enda engin ástæða til. Slíkt samræmist ekki að mínu mati grunngildum íslensku þjóðarinnar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að íslenskar mæður og feður gætu staðið frammi fyrir því að senda syni sína eða dætur í stríð. Vörnum landsins má sinna með öðrum úrræðum en innlendum vígbúnaði," sagði Valgerður á fundi um öryggis- og varnarmál í Háskóla Íslands í dag.
Megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleytni að tryggja þjóðfrelsi okkar
Í máli Valgerðar kom fram, að með þessu sé þó ekki sagt að íslenska þjóðin eigi að leiða það hjá sér að móta eigin öryggis- og varnarstefnu – öðru nær.
„Ríki sem tryggja ekki öryggi þegnanna, órofin landamæri, auðlindir og samgönguleiðir með fullnægjandi hætti eiga það á hættu að stofna sjálfstæði sínu í voða. Við Íslendingar metum sjálfstæði okkar og fullveldi mikils. Sagan geymir mýmörg dæmi um ill örlög varnarlausra þjóða og við megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðfrelsi okkar."
Valgerður sagði, að við brottflutning varnarliðsins hefði Ísland tekið við auknu hlutverki í vörnum landsins. Ísland muni taka við rekstri íslenska loftvarnarkerfisins. Framundan séu viðræður við Bandaríkin og samráð innan Atlantshafsbandalagsins um kerfið og með hvaða hætti það verður rekið í framtíðinni. Megináhersla sé þar lögð á að áfram verði til staðar geta til að fylgjast með loftvarnarsvæði umhverfis landið og tryggja að hér séu virkar loftvarnir ef hætta steðjar að landinu.
Þá sé einnig gert ráð fyrir að samstarf og tengsl á sviði hryðjuverkavarna verði eflt til muna. Einnig verði unnið að því að tryggja náið samstarf á sviði öryggismála á hafinu og á öðrum sviðum þar sem ríkin eiga sameiginlega hagsmuni.
Aðrar þjóðir ekki að taka við hlutverki varnarliðsins
Valgerður sagði, að jafnframt því sem varnarsamstarf Íslendinga við Bandaríkin þróast og eflist hafi byrjað samráðsferli við helstu grannríki um sameiginlega hagsmuni á sviði öryggismála. Nefnd utanríkis- forsætis- og dómsmálaráðuneytis hafi, undir forystu utanríkisráðuneytisins, þegar átt fundi með Dönum, Norðmönnum og Bretum um þau málefni og fyrirhugaðar séu viðræður við Kanadamenn og hugsanlega fleiri ríki. Þegar hafi komið í ljós áhugi þessara ríkja á samstarfi og unnið er að því að kanna frekar og formfesta með hvaða hætti ríkin geta notið fulltingis hvers annars í viðleitni sinni að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.
„Ég vil undirstrika að hér er ekki um að ræða viðleitni okkar til þess að fá aðrar þjóðir til þess að sinna hlutverki varnarliðs Bandaríkjanna hér á landi. Við erum ekki að leita að staðgenglum fyrir Bandaríkin í samstarfi um varnarmál og þessar þjóðir munu ekki hafa fasta viðveru herliðs hér á landi. Frumkvæði okkar miðar að því að styrkja öryggi okkar heimshluta á friðartímum og auka samstarfið við þessar grannþjóðir okkar – öllum aðilum til hagsbóta," sagði Valgerður Sverrisdóttir.