Bæjarstjórn Kópavogs sökuð um blekkingar við afgreiðslu Glaðheimalandsins

Samfylkingin í Kópavogi hefur sakað meirihlutann í bæjarstjórn um að hafa beitt blekkingum við afgreiðslu Glaðheimalandsins. Bent er á að athugasemdum, sem hafi borist Gunnari I. Birgissyni, bæjarstjóra Kópavogs, frá Garðabæ, hafi verið haldið leyndum fyrir fulltrúum minnihlutans. Þannig hafi aðal- og svæðisskipulag Glaðheimalandsins verið afgreitt í bæjarstjórn þann 14. nóvember þrátt fyrir að umræddar athugasemdir hafi borist þann 24. október.

„Okkur er algjörlega misboðið,“ segir Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hún segir að ef ljóst sé að stjórnsýslulög hafi verið brotin þá verði farið með málið til félagsmálaráðuneytisins.

Upplýsingar um athugasemdir bárust frá umhverfisráðuneytinu

Hún segir að þann 14. nóvember hafi verið tekin ákvörðun um það hvort bæjarfulltrúar væru fylgjandi eða mótfallnir aðal- og svæðisskipulaginu. „Við byggjum það á mati sem var unnið fyrir Kópavog, sem lýsir umferðarþróuninni samfara uppbyggingunni í Glaðheimum. Svo kemur inn bæjarráð í byrjun desember erindi frá umhverfisráðuneytinu, þar sem þeir eru að vekja athygli á athugasemdum frá Garðbæingum varðandi þetta skipulag,“ segir Guðríður og bætti því við að bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar hafi þótt undarlegt að ráðuneytið upplýst þá um þessar athugasemdir.

Hún segir að meirihlutinn hafi verið spurður hvort að hann hafi ekki vitað af þessum athugasemdum, en svörin hafi verið á þá leið að svörin hafi borist of seint.

Að sögn Guðríðar gerði bæjarstjórn Garðabæjar alvarlegar athugasemdir við skipulagið í Glaðheimum, þar sem engan veginn séu um óverulega breytingu að ræða. Bent er á að þar sé vísað í álitsgerð unna af Landmati og minnisblað Haraldar Sigþórssonar hjá Línuhönnun. Við afgreiðslu Glaðheimalandsins 14. nóvember var samþykkt breyting á aðal- og deiliskipulagi sem tók til breyttrar landnotkunar og fyrirhugaðra byggingu um 150 þús. fermetra athafnasvæðis. Guðríður segir fulltrúa Samfylkingarinnar hafa tekið afstöðu til málsins, byggða á skýrslu unna af Hönnun fyrir Kópavogsbæ. Þeir hafi ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af áhrifum þessa mikla byggingarmagns á umferðarsköpun á svæðinu, en samkvæmt upplýsingum sérfræðinga og mati byggða á skýrslu Hönnunar töldum bæjarfulltrúarnir forsvaranlegt að samþykkja skipulagið þó vissulega væri viðbúið að umferð samhliða uppbyggingunni myndi þyngjast.

Garðabær sagður hafa sent Kópavogi athugasemdirnar í október

Fulltrúar Samfylkingarinnar tóku málið upp í bæjarstjórn og lýstu áhyggjum sínum af athugasemdum Garðabæjar í kjölfarið. Þar kölluðu þeir eftir þessum álitsgerðum Garðabæjar en engin kannaðist við að hafa séð þau gögn segir Guðríður. „Okkur bárust svo þessi gögn sl. mánudag eða rúmum mánuði eftir að við óskuðum eftir þeim fyrst,“ segir Guðríður og bætir því við að hún hafi fengið þær upplýsingar frá skipulagsfulltrúa Garðabæjar að hann hefði sent yfirvöldum í Kópavogi umræddar athugasemdir þann 24. október sl. „Eftir því sem við komust næst, þá staðhæfa fulltrúar Garðabæjar að þetta hafi verið sent inn í Kópavog 24. október.“

Í þeim gögnum er umferðarsköpun á svæðinu máluð mun dekkri litum en í skýrslu Hönnunar segir Guðríður. Þar segir m.a.:

„Ljóst er, að nýir útreikningar út frá breyttu skipulagi Garðabæjar megin, munu gera ástand umferðar enn verra, eða færa það úr öskunni í eldinn. Umferðarsköpun vegna Hnoðraholts gæti þýtt um 900 bíla viðbót á Arnarnesveg á klst. á annatíma. Búast má við að ástandið á Arnarnesvegi við Reykjanesbraut yrði óásættanlegt með öllu, þjónustustig F á öllum helstu gatnamótum á öllum annatímum.

Ekki verður annað séð af framansögðu, en að fyrirhuguð uppbygging Glaðheima sé alltof umfangsmikil, byggð of þétt, hús of há og umferðarsköpun af þessum völdum óviðráðanleg.“

„Menn geta ekki endalaust komist upp með svona lagað. Og þegar þetta er svona grímulaust, eins virðist vera í þessu tilfelli, þá látum við ekki bjóða okkur svona þegjandi. Okkur ber skylda að sjá til þess að menn fái ákúrur ef menn ætli að vinna svona,“ segir Guðríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert