Búið er að ná öllum skíðamönnunum sem fastir voru í tveimur stólalyftum í Bláfjöllum um kvöldmatarleytið. Rafmagn fór af öllu Bláfjallasvæðinu klukkan sjö er útsendingabíll frá sjónvarpsstöð rak loftnetsstöng upp undir rafmagnslínurnar. 30 manna hópur björgunarsveitamanna Landsbjargar fór til að aðstoða við að ná fólki sem var fast í stólalyftunum. Enginn slasaðist við þetta óhapp svo vitað sé.
Hægt var að bakka stólalyftunni í Suðurgili niður og gekk greiðlega að ná fólki úr henni en lengri tíma tók að ná fólkinu úr lyftunni í Kóngsgili. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins voru 60 manns fastir í lyftunni í um 40 mínútur áður en tókst að bakka þeirri lyftu niður.
Starfsmenn skíðasvæðisins fóru um svæðið á snjótroðurum til að ganga úr skugga um að enginn væri eftir í myrkrinu.
Lögreglan sendi tvo menn á staðinn til að ræða við þá sem voru valdir að tjóninu og í ljós kom að bilun í útsendingarbílnum olli tjóninu. Ekki var unnt að ná glussastýrðri loftnetsstönginni niður í frostinu og því rakst hún í rafmagnslínurnar.
Arnar Páll Hauksson hjá Fréttastofu Útvarpsins sagði að útsendingabíllinn hefði bilað og að bílstjórinn hefði ekið af stað með loftnetið uppi og ekki séð rafmagnslínurnar í myrkrinu. Loftnetið skemmdist þó nokkuð við áreksturinn en rafmagn mun ekki hafa hlaupið í bílinn.
Grétar Hallur Þórisson forstöðumaður Bláfjallasvæðisins sagði að nú væri allt með kyrrum kjörum og verið að vinna að því að koma rafmagni aftur á svæðið. „Það er ekkert tjón eða bilun á búnaði hjá okkur...bara háspennuslit hjá Orkuveitunni. Við reiknum með að fá rafmagnið á í kvöld þannig að það verður opið hjá okkur í fyrramálið ef fram fer sem horfir," sagði Grétar Hallur í samtali við Fréttavefinn.
Hann vildi einnig koma að þakklæti til þeirra sem unnu að björguninni og benda fólki á að halda miðunum frá því í dag og eitthvað verður gert fyrir það næst þegar það á leið á skíðasvæðið.