Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ekki væri hægt að draga aðra ályktun af skýrslu Ríkisendurskoðunar um Byrgið, en að rekstraraðilar Byrgisins hefðu brugðist því trausti, sem þeim var sýnt af hálfu ríkisins. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ljóst, að stjórnsýslumistök hefðu orðið af því að reglum var ekki fylgt.
Rætt var um málefni Byrgisins utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Sagði Jón Sigurðsson, að Byrgismálið væri mjög alvarlegt mál og félagsmálaráðherra staðfesti þá ábyrgð sem á ráðuneytinu hvíldi. Jón var hins vegar til svara á Alþingi þar sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, er veðurtepptur í útlöndum.
Lúðvík sagði m.a., að ríkisstjórnin hefði árið 2003 samþykkt skilyrta fjárveitingu til Byrgisins og í framhaldi af því hafi verið gengist í að útbúa yfirlýsingar þar sem taka átti fram hvernig staðið skyldi að fjárveitingunum. M.a. voru sett skilyrði fyrir fjölda vistmanna, sem aldrei voru uppfyllt, að ársreikningar lægju fyrir og að ríkisendurskoðandi hefði yfirumsjón með verkefninu. Sagði Lúðvík, að nú hefði komið fram, að ríkisendurskoðandi vissi ekki um þetta hlutverk sitt.
Í yfirlýsingunni var kveðið á um, að ef þessar kröfur væru ekki uppfylltar mætti stöðva greiðslur án þess að Byrgið ætti nokkurn rétt á hendur ríkissjóði. Lúðvík sagði að þrátt fyrir að skilyrði yfirlýsingarinnar voru ekki uppfyllt hefðu runnið úr ríkissjóði á þriðja hundrað milljónir til þessa verkefnis á árunum 2003 þar til nú.
Lúðvík sagði, að það væri hlutverk félagsmálaráðherra að sjá um þessar greiðslur og hafa eftirlit með þeim. Hins vegar hefði enginn viljað taka á sig nokkra ábyrgð ef formaður fjárlaganefndar væri undanskilinn.
Jón Sigurðsson sagði, að síðari hluta ársins 2002 og 2003 hefði verið mikil umræða á Alþingi og í fjölmiðlum um fjármál Byrgisins og þrýst hefði verið á um úrbætur. Viðræður hófust við fulltrúa Byrgisins og var yfirlýsing undirrituð í apríl 2003 þar sem skilyrði voru sett fyrir fjárstuðningi.
Brugðust trausti
Jón sagði að Byrgið og fjölmörg önnur félagastamtök fengju framlög úr ríkissjóði en ekki hefði verið ástæða til að gera sérstakan þjónustusamning við Byrgið. Ekki yrði dregin önnur ályktun af skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið en að rekstaraðilar Byrgisins hafi brugðist trausti sem þeim var sýnt. Jón sagði enga fjöður dregna yfir, að eftirlit hefði mátt vera betra en nú væri verið að grípa til ráðstafana og tryggja, að lærdómur yrði dreginn af málinu.
Margir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem tóku til máls, sögðu ljóst að félagsmálaráðherra bæri ábyrgð á málinu. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði að félagsmálaráðherra hefði orðið á alvarleg embættisafglöp, fyrst og fremst haustið 2003, þegar hann ákvað að afhenda Byrginu fé þótt forsvarsmenn þess hefðu neitað að undirrita yfirlýsingu um fjárstuðninginn.
Opinberu fé sóað fyrir framan nef ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að málið væri vont fyrir Framsóknarflokkinn, sem væri undir, yfir og allt um kring í því. Sagði Steingrímur, að það væri ódýr og aumleg málsvörn hjá viðskiptaráðherra, að skjóta sér á bakvið það að Alþingi hafi veitt fé til Byrgisins. Ábyrgðin væri hjá félagsmálaráðherra og ráðherrann væri jafn sekur hvort sem um er að ræða beina aðgerð eða aðgerðarleysi. Í þessu máli væri meðferð fjármuna í slíkum ólestri, á ábyrgð félagsmálaráðherra, að engu tali tæki. Það væri stóráfall að opinberu fé væri sóað með þessum hætti fyrir framan nefið á ráðuneytinu og Ríkisendurskoðun.
Þá gagnrýndi Steingrímur einnig þá ákvörðun félagsmálaráðherra, að fela næsta trúfélagi málefni langt leiddra vímuefnasjúklinga, sem voru í Byrginu. Fleiri þingmenn gagnrýndu, að ekki hefði verið leitað til fagaðila á borð við SÁÁ.
Jón Sigurðsson sagði í lok umræðunnar, að allar spurningar, sem komið hefðu fram væru til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu. Hann ítrekaði, að Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, skyti sér ekki undan ábyrgð í málinu en benti á, að Magnús bæri einnig ábyrgð á því að málið var upplýst, með því að fela Ríkisendurskoðun að rannsaka fjármál Byrgisins í nóvember. Hann bæri einnig ábyrgð á því að greiðslur til Byrgisins væru stöðvaðar og á þeim lausnum, sem unnið væri að.