Herbalife hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta í íslenskum fjölmiðlum um að upp hafi komið eitrunartilfelli eftir neyslu á vörum frá fyrirtækinu. Segir í yfirlýsingunni, að læknum í ráðgjafarnefnd Herbalife og óháðir lifrarsérfræðingar hafi allir komist að þeirri niðurstöðu að engin bein eða eiginleg eitrun sé af völdum Herbalife vara eða innihaldi þeirra.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
Við fullvissum viðskiptavini Herbalife um að vörur okkar eru öruggar. Herbalife-vörur hafa verið seldar á Íslandi sjö undanfarin ár með fullu samþykki Lyfjaeftirlits ríkisins. Hjá okkur er í fyrirrúmi að neytendur treysti vörunum og áhrifamætti þeirra. Fulltrúi Herbalife hitti Magnús Jóhannsson prófessor í apríl 2006. Magnús Jóhannsson lýsti þeirri skoðun sinni að sumar vörur kynnu að hafa innihaldið eitt eða fleiri af níu jurtaefnum sem hann taldi áhyggjuefni, þ.e. birkiaska, býflugnafrjóduft, Drottningarhunang, Gingo Biloba, Jóhannesarjurt, kvöldvorrósarolía, sólhattur, ginseng og efedra/efedrín beiskjuefni.
Herbalife staðfesti í bréfi til Magnúsar Jóhannssonar að þau 32 fæðubótarefni Herbalife, sem væru skráð hjá Lyfjaeftirliti ríkisins til sölu á Íslandi, innihéldu ekki ofangreindar jurtir fyrir utan Male Factor 1000 sem í eru tvenns konar ginseng efni. Að auki staðfesti nánari rannsókn á blöndunum að engin vara innihéldi neinar jurtir sem vísindamenn hafa talið hafa hugsanleg eitrunaráhrif. Þar sem viðskiptavinir okkar bera fullt traust til vara okkar, leituðum við einnig að mengunarefnum í þeim, svo sem þungmálmum eða leifum af skordýraeitri en fundum ekkert slíkt.
Herbalife fór því fram á styttar sjúklingaupplýsingar frá Magnúsi Jóhannssyni til að skilja betur möguleikana á undirliggjandi sjúkdómseinkennum. Enn höfum við ekki fengið þessar upplýsingar en höldum áfram að leita eftir staðreyndum þessa máls til að geta framkvæmt viðeigandi rannsóknir.
Í þeim fáu fyrirspurnum, sem fyrirtækið hefur fengið undanfarin 26 ár og tengjast lifrarsjúkdómum, hefur í flestum tilvikum komið í ljós að þeir tengjast fyrirliggjandi orsökum eins og veirusýkingu vegna áfengisneyslu, sykursýki, offitu, lifrarbólgu, fitulifrarsýki, öðrum heilsufarsástæðum eða lyfjatöku.
Þessi fáu tilfelli sem athygli okkar hefur verið vakin á, hafa verið könnuð af læknum okkar í ráðgjafarnefnd Herbalife og óháðum lifrarsérfræðingum sem allir hafa komist að þeirri niðurstöðu að engin bein eða eiginleg eitrun sé af völdum Herbalife vara eða innihaldi þeirra.
Jurtaefni í vörum Herbalife eru öll vel þekkt og notuð víða um heim. Öryggi þeirra og áhrif hafa margsinnis verið prófuð og á Íslandi hafa öll efni okkar verið heimiluð af hálfu Lyfjaeftirlits ríkisins. Þeirra er óhætt að neyta.