Verð á mat og drykkjarvörum muni lækka um 8,7% við að virðisaukaskattur á þessum vörum lækkar 1. mars og vörugjöld verða aflögð. Hagstofan áætlar nú, að vísitala neysluverðs ætti að lækka um 1,9% vegna þessara aðgerða.
Breytingarnar á álagningu virðisaukaskatts 1. mars verða þær, að virðisaukaskattur á matvælum, sem er ýmist 14% eða 24,5% nú, verður 7%. Virðisaukaskattur á annarri vöru og þjónustu sem nú er 14%, verður 7%. Þar er um að ræða útleigu hótel- og gistiherbergja og á annarri gistiþjónustu, afnotagjöld hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva, sölu tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns, aðgang að vegamannvirkjum (Hvalfjarðargöng) og geisladiska, hljómplötur og segulbönd með tónlist þar sem virðisaukaskattur er nú 24,5%, en verður 7%.
Þá falla niður vörugjöld af innfluttum og innlendum matvælum önnur en þau sem lögð eru á sykur og sætindi. Áætlað er að þau gjöld nemi á verðlagi í janúar 2007 ríflega 900 milljónum króna. Það er um 150 milljónum króna lægri fjárhæð en miðað var við í skýrslu formanns matvælaverðsnefndar og verðáhrif af lækkun vörugjaldannna eru því minni en áður var talið.
Hagstofan segir, að áhrif af breytingum á tollum á innfluttum kjötvörum hafi ekki verið metinr enda liggi útfærsla þeirra ekki fyrir.
Hagstofan gerir ráð fyrir að verð á mat og drykkjarvöru lækki samtals um 8,7% sem þýðir 1,2% lækkun á vísitölu neysluverðs. Verðlækkun á þjónustu hótela og veitingastaða verður 8,6% sem svarar til 0,4% lækkun á vísitölu og önnur áhrif eru metin 0,3%. Samtals mun vísitalan því lækka um 1,9% samkvæmt áætlun Hagstofunnar.