Flokksráðsfundi VG í Reykjavík lokið

Flokksráðsfundi Vinstri grænna í Reykjavík lauk í dag, fundurinn einkenndist af málefnavinnu fyrir komandi kosningar, en fjórar ályktanir voru samþykktar á fundinum. Í ályktunum flokksins segir m.a. að flokkurinn telji óviðunandi ekki hafi verið brugðist fyrr við ásökunum á hendur fyrrum forstöðumanni Byrgisins, sem fram komu í nóvember á síðasta ári. Þá leggst flokkurinn gegn frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmdum.

Í ályktun um málefni Byrgisins segir að flokkurinn telji óviðunandi að Ríkissaksóknari og Sýslumannsembættið á Selfossi hafi ekki brugðist þegar í stað við þeim ásökunum sem komu fram í sjónvarpsþætti í nóvember 2006, gegn fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins um meint kynferðis-samband hans við skjólstæðinga þess. Segir í ályktuninni að viðbrögðin veki furðu, ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld brugðust tafarlaust við ásökunum um fjármálamisferli.

Þá er fjallað um fyrirhugaðar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir og segir í ályktun flokksins að ljóst sé að afdrifaríkar ákvarðanir á þessu sviði geti ekki verið einkamál einstakra sveitarfélaga. Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs telur engan veginn nægjanlegt að láta aðeins kjósa um afmarkaða skipulagsþætti s.s. deiliskipulag lands í einstaka sveitarfélögum eins og nú stendur til í Hafnarfirði vegna álbræðslunnar í Straumsvík.

Lagst er gegn fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, áformum um byggingu álbræðslu í Helguvík og við Húsavík, virkjana í neðrihluta Þjórsár, Jökulsánna í Skagafirði, jarðvarmavirkjana á Reykjanesskaga, Hengilsvæðinu og Þingeyjarsýslum.

Vinstri græn lýsa einnig furðu sinni á því andvaraleysi sem „ríkt hafi af hálfu hins opinbera undanfarin ár um hag stórs hóps vímuefnaneytenda og geðsjúkra og minni á samfélagslega ábyrgð í því efni.”

Í fjórðu ályktuninni fagnar flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn því að kona hafi í fyrsta skipti boðið sig fram til formennsku í Knattspyrnusambandi Íslands. Segir i ályktuninni að knattspyrna hafi fram til þessa verið eitt helsta vígi karlmennskunnar og að innan knattspyrnusambandsins hafi ríkt „óviðunandi misrétti milli karla og kvenna”.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert