Utanríkisráðuneytið vill veita fullan aðgang að skjölum um öryggis- og varnarmál

mbl.is/ÞÖK

Það er afstaða utanríkisráðuneytisins að veita beri almenningi og fræðimönnum fullan aðgang að skjölum sem fjalla um öryggis- og varnarmál, standi ákvæði gildandi laga og þeirra þjóðréttarsamninga sem Ísland hefur gengist á annað borð ekki í vegi fyrir slíkum aðgangi. Þetta kemur fram í svarbréfi utanríkisráðuneytisins til formanns svonefndrar „kaldastríðsnefndar“ en nefndin hafði m.a. óskað eftir upplýsingum um gögn í skjalasafni ráðuneytisins sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945 til 1991.

Í svarbréfi ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hefur hins vegar ekki undir höndum lista yfir öll þau mál sem hafa að geyma upplýsingar er snerta öryggismál Íslands á umræddu tímabili, enda eru skjöl ráðuneytisins frá þessu tímabili mikil að vöxtum og má ætla að talsverður hluti þeirra snerti öryggismál Íslands.

Kostar þrjú ársverk að gera skjölin aðgengileg

„Til að varpa ljósi á umfang þeirra gagna sem ráðuneytið hefur í vörslum sínum og gætu varðað öryggismál Íslands má nefna að þau skjöl sem geymd eru í hinu almenna skjalasafna ráðuneytisins frá þessu tímabili nema um 800 hillumetrum og skjöl frá þessu tímabili í skjalasafn varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins (sem er aðskilið hinu almenna skjalasafni) nema um 50 hillumetrum.

Áætlað er að framkvæmd könnunar á öllum skjölum ráðuneytisins frá þessum tíma og vinna við að gera þau aðgengileg myndi kosta u.þ.b. þrjú ársverk. Eru þá ótalin þau skjöl sem er að finna í skjalasöfnum sendiráða, fastanefnda og aðalræðisskrifstofa Íslands frá þessu tímabili en þau nema um 500 hillumetrum.

Aðeins hluti þeirra skjala er nú á Þjóðskjalasafni, ráðuneytið hefur lokið að pakka og skrá stóran hluta þessara skjala til viðbótar og bíða þau þess að Þjóðskjalasafnið geti tekið við þeim en enn á eftir að skrá hluta þessa safns.

Ráðuneytið er hins vegar fyllilega reiðubúið til þess að veita yður, eða þeim sem þér kjósið að tilnefna, fullan aðgang að skjalasafni ráðuneytisins.

Ennfremur er ráðuneytið reiðubúið til að annast millgöngu um að afla nauðsynlegrar öryggisvottunar frá Atlantshafsbandalaginu vegna aðgangs að gögnum sem aðgangur er takmarkaður að samkvæmt reglum þess.

Upplýsingar um skjöl á vef utanríkisráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert